Er hugsanlegt að illvilji ráði hömlulausri umfjöllun fjölmiðla, „álitsgjafa“ og stjórnmálamanna um flugfélagið WOW?
Um það verður ekki fullyrt hér. En full ástæða er til að staldra við og velta því fyrir sér hvað það er sem knýr þessa harðvítugu umræðu áfram:
- Byggja menn á traustum upplýsingum? Nei.
- Er verið að þjóna andstæðum hagsmunum? Hver veit?
- Eru stjórnmálamenn að reyna að beina athyglinni frá eigin vanmætti og svikum með blaðri sínu? Þyrfti ekki að koma á óvart.
- Eða ræður illvilji niðurrifsmannana, þeirra sem vilja stimpla sig inn með hrakspár og segja svo ef illa fer: I told you so.? Margt bendir til þess.
Það er ekki einleikið hvernig umræðan hefur verið um þetta ágæta flugfélag WOW sem hefur gert tugum þúsunda Íslendinga kleift að komast til útlanda á viðráðanlegu verði. Að ekki sé talað um framlag þessa fyrirtækis til að flytja útlendinga til landsins og auka með því ferðamannastrauminn. Það má ekki gleymast að ferðaþjónustan og ferðamannastraumurinn björguðu Íslandi út úr kreppunni sem hrunið olli fyrir tíu árum. Vöxtur ferðaþjónustunnar eyddi atvinnuleysinu, kom fjárfestingum af stað, bætti gjaldeyrisstöðu þjóðarbúsins, jók kaupmátt fólks – skapaði hagvöxtinn. WOW flugfélagið lagði sitt af mörkum til þess.
Fjölmiðlar og aðrir sem telja sig réttborna til að fjalla um málefni WOW minnast varla á þessar staðreyndir.
Hér er ekki gert lítið úr þeim vanda sem félagið virðist vera að fást við. Virðist vera því upplýsingar liggja ekki fyrir. Hvorki hér né hjá þeim sem leyfa sér að fjalla um viðkvæm mál fyrirtækisins eins og þeir viti nákvæmlega hvað er að gerast varðandi mikilvæga fjármögnun til framtíðar. Án traustra upplýsinga ættu menn að fara hægt í fullyrðingar.
Ljóst er að sú mikla og neikvæða umræða sem sprottið hefur upp vegna félagsins er að stórskaða það gagnvart mögulegum fjármögnunaraðilum og reyndar öllum þeim markaði sem félagið starfar á. Hver ætlar að bera ábyrgð á því? Ef til vill forsætisráðherra sem kom fram fyrir nokkru í sjónvarpi og gretti sig óskaplega þegar spurt var um félagið. Katrín tók fram að ríkið væri ekki í ábyrgð fyrir WOW, þó enginn hefði spurt hana um það. Hvers vegna? Ráðherra verður að vanda sig og velja svör sín rétt í viðkvæmum málum. Ætla fjölmiðlar að bera ábyrgð vegna óstaðfestra vondra frétta sem hver miðillinn étur upp eftir öðrum. Oftar en ekki byrja „fréttir“ á einhverjum hugrenningum frá litlum vef sem nefnist turisti.is. Hvað er það með leyfi að spyrja? Stóru miðlarnir vitna svo í þennan dverg eins og um dómstól sé að ræða. Það verður að gera meiri kröfum til fjölmiðla en þetta!
Málefni WOW skýrast á næstu dögum. Vonandi fer allt vel. Það eru hagsmunir okkar allra – eða flestra. Alla vega eigandans, starfsmannana, viðskiptavinana sem bjóðast hagstæð fargjöld og þjóðarinnar vegna mikilvægis ferðaþjónustunnar. Einu sem munu hrósa happi ef illa fer, eru þá þeir sem hafa fjallað um félagið af illvilja og kæmu þá til baka og segðu: I told you so. Það eru hinir sömu og þóttust hafa séð hrunið fyrir. Reyndar eftir að það var afstaðið.
Héðan fylgja Skúla Mogensen, starfsfólki WOW og viðskiptavinum félagsins góðar kveðjur. Vonandi fer allt vel.
Rtá.