Allt bendir til þess að áhugi fólks á upplýsingum um tekjur samborgaranna fari minnkandi. Upplag svonefndra tekjublaða fer minnkandi og samkvæmt heimildum okkar þurfti að henda mörg þúsund eintökum af tekjublaði Frjálsrar verslunar í fyrra eftir að sölutímanum lauk. Nú mun prentað upplag vera mun minna og salan er dræm. Áhugi fólks fer minnkandi.
DV var fyrst með helstu fréttir af tekjum þekktra Íslendinga í síðustu viku enda birti miðillinn upplýsingar sínar jafnt og þétt eftir því sem vinnu blaðamanna vatt fram en skattyfirvöld opnuðu aðgang að þessum upplýsingum fyrir fjölmiðla og allan almenning fimmtudaginn 17. ágúst. DV valdi að fleyta rjómann ofan af ef svo má segja. Lesendur hafa mestan áhuga á þekktasta fólkinu og DV fjallaði um það og valdi fólkið úr mörgum mismunandi áttum – stjórnendur ríkisins, stjórnendur fyrirtækja, listamenn, íþróttafólk, svonefnda álitsgjafa, bæjarstjórnarmenn, verkalýðsleiðtoga og starfsmenn samtaka atvinnurekenda, svo dæmi séu tekin um helstu hópa.
Frjáls verslun hefur valið að fletta upp miklum fjölda skattgreiðenda og birta niðurstöður sínar til að freista þess að vekja forvitni margra. Áhuginn fyrir starfskjörum millistjórnenda, presta, sjómanna, lækna, hjúkrunarfræðinga og verkfræðinga er mjög takmarkaður. Þess vegna er botninn smám saman að detta úr útgáfu tekjublaða sem ganga út á að næra forvitni samborgaranna með þessum hætti.
Áhuginn á þessu var mestur um og upp úr síðustu aldamótum áður en hrunið dundi yfir og starfskjör margra voru með miklum ólíkindum þannig að fólk var orðlaust og varð að afla sér upplýsinga um þá vitleysu sem þá var ríkjandi. Þessu ástandi lauk svo öllu í hruninu og eftir það hefur áhuginn á tekjum annarra farið hægt og bítandi minnkandi.
Inn í þessa þróun blandast svo að margar stéttir hafa í vaxandi mæli sótt tekjur sínar með þeim hætti að þiggja verktakalaun fyrir fyrirtæki á sínum vegum. Við það fyrirkomulag er ekkert að athuga enda er það fullkomlega löglegt og eðlilegt. En vandinn er sá að þeir sem vilja forvitnast um raunverulegar launatekjur samborgaranna eiga erfiðara með að sjá heildarmyndina. Meira þarf að hafa fyrir eins og til dæmis að finna einnig út hve mikið fólk greiðir í fjármagnstekjuskatt til viðbótar við tekjuskatt og útsvar.
Meðal stétta sem nýta sér fyrirkomulag verktakalauna, á fullkomlega lögmætan hátt, eru verkfræðingar, læknar, lögfræðingar, endurskoðendur, sjálfstæðir atvinnurekendur, álitsgjafar, íþróttamenn, þjálfarar, leikarar, söngvarar, rithöfundar og aðrir listamenn.
Slíkt fyrirkomulag gerir líf hinna forvitnu flóknara. Jafnframt dregur úr áhuga fólks á tekjublöðum og upplýsingum fjölmiðla um afkomu fólks.
- Ólafur Arnarson