Deilur hafa sprottið upp vegna áforma Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um að nota sumarleyfi þingsins til að sinna ferðaþjónustu. Hefur hann stofnað sérstakt fyrirtæki um reksturinn sem hann nefnir ÞINGMANNALEIÐ. Gagnrýni hefur komið fram vegna þessara áforma þar sem bent hefur verið á að þingmenn séu ekkert illa haldnir í launum og starfskjörum enda sé látið í veðri vaka að seta á Alþingi sé fullt starf.
Líta verður þannig á að út frá starfskjörum sé þetta fullt starf en draga má það í efa þegar litið er til þess að þingmenn virðast geta sinnt öðrum störfum samhliða þessu og látið sig hverfa frá þinginu í löngum leyfum. Sumir segja að landið sé stjórnlaust í marga mánuði á meðan en aðrir benda á að það gangi aldrei betur en þegar þingið er farið út í vorið eða jólastemninguna.
Á vef Alþingis koma starfskjör þingmanna fram. Ásmundur Friðriksson er samkvæmt þessum vef með 1.4 milljónir króna í laun á mánuði, auk skattfrjálsra hlunninda – að ekki sé talað um ferðakostnaðinn sem Alþingi greiðir. Ásmundur hefur verið ferðakostnaðarkóngur þingsins um árabil og óhætt er að segja að enginn Alþingismaður hafi verið eins mikið úti að aka hin síðari ár eins og hann. Starfskjör Ásmundar slaga hátt í tvær milljónir króna á mánuði, fyrir utan aksturskostnaðinn sem hefur numið milljónum á ári.
Alþingi lýkur störfum þann 9. júní nk., samkvæmt starfsáætlun þingsins, og kemur saman að nýju í byrjun október. Sumarleyfi þingsins er 110 dagar. Fyrir utan rausnarlegt jólaleyfi sem síðast stóð yfir í 38 daga og svo er gert gott stopp í kringum páskahátíðina. Eftir almenna lengingu orlofs fólksins í landinu upp í 6 vikur nemur leyfi almennings 42 dögum. En þingmenn þurfa svona miklu lengra leyfi en svonefndir „óbreyttir borgarar“. Þegar þetta er nefnt við þingmenn svara þeir því oftast á þann veg að þeir séu að vinna svo mikið í þessum leyfum. Þeir þurfi að sitja nefndarfundi, kynna sér málefni og heimsækja kjósendur.
Ef þetta er rétt, þá virðist Ásmundur Friðriksson ekki þurfa að sitja nefndarfundi, kynna sér málefni eða heimsækja kjósendur í langa sumarleyfinu. Hann ætlar að selja erlendum ferðamönnum þjónustu og lóðsa þá um landið vegna þess að tvær milljónir á mánuði fyrir þingsetuna virðast ekki duga honum.
Ef til vill munu þessir erlendu ferðamenn segja Ásmundi eitthvað merkilegt í sumar sem hann getur þá tekið upp þegar þing kemur saman í haust. Hann gæti rekist á einhvern útlending sem kann góð ráð til að sporna gegn verðbólgu og okurvöxtum og veit hvernig á að stjórna efnahagsmálum þjóðarinnar en núverandi valdhafar hafa sýnt að þeir kunna engin ráð.
Í ljósi þess er það kannski vel til fundið hjá Ásmundi Friðrikssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, að vera sem allra mest úti að aka með útlendinga í sumar og fram á haust.
- Ólafur Arnarson