Er Svandís að klúðra kaupum þjóðarinnar á bóluefni?

Upplýsingar heilbrigðisyfirvalda um magn bóluefnis sem Íslendingar eru að fá á næstunni hafa verið ákaflega misvísandi. Lengi hefur verið talað um að við fengjum 25 til 30 þúsund bólefnisskammta í fyrstu sendingu og svo kæmi efnið hratt inn í kjölfarið.

Þegar tilkynnt var í gær að Íslendingar fengju einungis fimmþúsund skammta í fyrstu sendingu og svo meira einhvern tíma í janúar eða febrúar, varð mikið uppnám í samfélaginu. Mörgum er ljóst að bólefni er forsenda þess að samfélag hér komist í eðlilegt horf að nýju. Ekki verður tekist á við böl atvinnuleysisins fyrr en búið er að bólusetja meirihluta landsmanna og vonir sóðu til að það yrði gert á skömmum tíma í byrjun árs 2021. Nú virðist þetta vera háð óvissu og mikillar svartsýni er tekið að gæta vegna framgöngu yfirvalda.

Í morgunútvarpi Bylgjunar í dag var rætt við Svandísi Svavarsdóttur sem hafði greinilega engin afgerandi svör en þvældi um málið út og suður í mörgum orðum eins og henni er lagið. En ekki glitti í kjarna máls, það er hvernig á því stendur að yfirvöld virðast ekki vita mikið um framvindu þessa risastóra máls. Þegar Svandís var spurð hvort það væru ekki vonbrigði að fyrsta sending yrði einungis fimm þúsund skammtar þá svaraði hún neitandi. Með öðrum orðum: Henni virðist þykja allt í lagi að ekki sé staðið við það sem sagt hefur verið um þetta mikilvægasta mál Íslandinga um þessar mundir!

Heilbrigðisráðuneytið hefur alfarið haft innkaup bóluefnis á sinni könnu. Umboðsmenn lyfjafyrirtækjanna hér á landi hafa hvergi fengið að koma nærri. Sennilega óttast Svandís að heildsalar gætu haft tekjur af slíkri milligöngu því fátt er verra hjá sósíalistum en að heildsalar græði! Það má alveg velta því fyrir sér hvort við Íslendingar værum ekki komnir lengra með innkaup þessa mikilvæga bóluefnis ef innkaupin væru í höndum fólks sem er vant að fást við viðskipti en ekki í höndum embættismanna ráðuneytis og stjórnmálamanna sem eru vanir að fást við allt annað en viðskipti.

Svo virðist sem Svandís og hennar aðstoðarfólk ráði ekki við það risastóra verkefni að útvega þjóðinni bóluefni eins fljótt og auðið er. Í löndunum í kringum okkur er byrjað að bólusetja milljónir manna og þá er Íslendingum boðið upp á að hefja þetta ferli með einungis fimmþúsund skömmtum sem er beinlínis hlægilegt og fyrir neðan allar hellur.

Bólusetningar við veirunni eru lykillinn að endurreisn Íslands. Hver dagur sem þetta dregst að óþörfu kostar þjóðarbúið milljarða króna. Sumir segja að hver dagur kosti okkur þrjá milljarða.

Látum sleifarlag heilbrigðisráðherra og heilbirgðisyfirvalda ekki draga máttinn úr þjóðinni umfram það sem ekki verður umflúið. Það verður að gera þá kröfu til formanna hinna tveggja ríkisstjórnarflokkanna, Bjarna Benediktssonar og Sigurðar Inga Jóhannssonar, að þeir láti taka innkaupaferli bóluefnisins úr höndum Svandísar og þeirra óhæfu embættismanna sem með hann vinna og komi þessu mikilvæga verki í hendur fólks sem kann til verka og hefur reynslu af viðskiptum.

Látum veiruvandann ekki verða milljarðatugum stærri en orðið er vegna vanþekkingar og óþolandi mistaka þeirra sem virðast ekki kunna til verka.