Er styrmir ekki lengur læs á umhverfið?

Sú var tíð að Morgunblaðið skipti miklu máli í pólitískri umræðu á Íslandi. Þá voru ritstjórar blaðsins með mikil sambönd og nutu trausts víða út um samfélagið. Þetta var á tímum Valtýs Stefánssonar, Bjarna Benediktssonar, Sigurðar Bjarnasonar, Eyjólfs Konráðs Jónssonar og svo á seinni hluta síðustu aldar í tíð þeirra Matthíasar Johannessen og Styrmis Gunnarssonar.
 
Styrmir er enn að blanda sér í umræðuna en hefur ekki lengur vægi sem álitsgjafi. Góðu tímarnir á Morgunblaðinu, þar sem menn höfðu tengsl og nutu aðgangs að trúnaðarupplýsingum, eru löngu liðnir.
 
Það sem Styrmir lætur frá sér fara í seinni tíð einkennist meira af óskhyggju hans og fortíðarþrá. Hann hefur lengi talað fyrir “sögulegum sáttum” við sósílaista og viljað sjá Sjálfstæðisflokkinn og Alþýðubandalagið (Vinstri græna) taka höndum saman við myndun ríkisstjórnar og ganga í eina pólitíska sæng. Þó Styrmir hafi starfað innan Sjálfstæðisflokksins eru margir þeirrar skoðunar að hann hafi alla tíð verið sósíalisti - “laumukommi”,  eins og margir innan flokksins hafa haldið fram. Styrmir hefur átt vini á þeim kanti stjórnmálanna og einnig er um að ræða fjölskyldutengsl en eiginkona hans heitin var dóttir Finnboga Rúts Valdimarssonar sem var mikill áhrifamaður á vinstri væng stjórnmálanna.
 
Styrmir viðrar nú um helgina þá skoðun sína að staðan í stjórnmálum Íslands sé þannig að sennilega verði að kjósa að nýju. Hann spáir því að þá muni staðan á Alþingi “einfaldast”. Og svo birtist óskhyggja hans: Samfylkingin ætti þá að þurrkast út og Viðreisn ætti að tapa fylgi. Styrmir er eins og kunnugt er hatrammur andstæðingur ESB og stækur einangrunarsinni. Vegna þess að Samfylking og Viðreisn eru alþjóðalega sinnaðir flokkar, þá vonast hann auðvitað til að illa fari fyrir þeim.
 
Á bak við orð Styrmis eru engin rök, einungis illspá og rótgróið hatur gegn frjálslyndum flokkum sem hann og félagar hans í Hreimssýn næra með sér.
 
Dagfari telur meiri rök fyrir því að spá annarri þróun varðandi fylgi flokka, komi til kosninga fljótlega. Þá má gera ráð fyrir því að þeir flokkar sem hafa haft stjórnarmyndunarumboðið í heilan mánuð án þess að vera þess megnugir að ná saman ríkisstjórn, fengju makleg málagjöld og töpuðu fylgi. Þar er vitanlega átt við Sjálfstæðisflokk og VG – flokkanna hans Styrmis. Þá kæmi ekki á óvart að Píratar héldu áfram að tapa fylgi nema þeim takist nú hið óvænta og komi saman fimm flokka bandalagi.
 
Komi til kosninga fljótlega þarf ekki að búast við miklum breytingum á fylgi Framsóknar. Flokkurinn er kominn “heim” í þetta 10-12% fylgi sem hann virðist ekki geta farið niður úr þó hann sé klofinn í herðar niður og hafi klúðrar flestu sem unnt er að klúðra. Þetta er það sem stundum er nefnt “genetískt” fylgi Framsóknar. Þá er vísað til kjósenda sem eru fæddir inn í flokkinn (og geta ekkert að því gert). Þeir kjósa eins alla ævi og kunna ekki að yfirgefa Framsókn þó mikið gangi á.
 
Gera má ráð fyrir því að Samfylking rétti úr kútnum þegar hægri jafnaðarmaður hefur tekið við formennsku. Mörgum flokksmönnum er brugðið og þeir munu fylkja sér um flokkinn. Bæði Björt framtíð og Viðreisn hafa stimplað sig inn sem öflugir flokkar á miðjunni og yfir til hægri. Þeir munu ekki gera neitt annað en að vaxa á komandi tímum.
 
Eftir nýjar kosningar síðar í vetur gætum við alveg séð stöðuna á Alþingi einhvern veginn svona: Sjálfstæðisflokkur með 17 þingmenn, VG 8, Píratar 8, Framsókn 8, Viðreisn 9, BF 7 og Samfylking 6.
 
Ekki myndi staðan á Alþingi “einfaldast” mikið við þetta, ef úrslitin yrðu í líkingu við það sem hér er nefnt.
 
Þessi umræða er þó alveg óþörf. Flokkarnir vilja síst af öllu þurfa að efna til kosninga að nýju. Þó allrasíst  gömlu og stórskuldugu flokkarnir sem eru í gífurlegum skuldavanda. Ekki má gleyma því að Sjálfstæðisflokkurinn skuldar 450 milljónir króna og hefur þurft að veðsetja Valhöll fyrir eyðsluskuldum sínum í Landsbankanum og Framsókn er mjög illa stödd fjárhagslega með um 250 milljón króna skuldir. Þessir flokkar hafa engan áhuga á að auka á vanda sinn með nýjum útgjöldum vegna kosninga.
 
Það eru einungis nýju flokkarnir; Píratar, Viðreisn og Björt framtíð sem eru skuldlausir.