Meidd stúlka minni frétt en makríll?

 

Er stúlka sem meiðir sig minni frétt en dauður makríll?

Svarið við spurningunni gæti verið að það veltur svolítið á því hvað gerist næst.

Fyrir nokkru var fjallað hér í fréttum Hringbrautar um telpu í Reykjavík sem meiddi sig. Það var komið kvöld og mamma hennar fór með hana á náttfötunum í hendingskasti á bráðamóttöku spítala. Þrátt fyrir annríkið og lætin hjá þrautpíndu starfsfólki  gaf það sér mikillvægan tíma til að huga vel að tilfinningalífi litlu stúlkunnar þegar það meðhöndlaði mein hennar. Hún var hrædd, eins og fimm ára börn eru þegar þeim blæðir og áður óþekktur líkamlegur sársauki læsir sig um líkamann. Kannski fórnaði starfsmaður einni kaffipásu sérstaklega til að róa ungu stelpuna, sem er aldrei sjálfgefið. Þegar einhver græjaði tæki og tól til að blása sápukúlur fyrir þá stuttu tók litla skottið gleði sína, óttinn hvarf og aðgerðin í kjölfarið gekk vel.

Ég ræddi við þakkláta móður og gerði litla frétt um þetta. Litla frétt, segi ég, en hvað er lítil frétt og hvað er stór frétt? Svona frétt yrði aldrei sögð snemma í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna. En viðskiptapólitískar sögur af dauðum fiski komast gjarnan í helstin. Eru sögur ad dauðum makríl endilega stærri frétt en sögur af stelpu, mannúð og litfögrum sápukúlum?

Sumir hefðu ritskoðað sápukúlurnar út í buskann sem fréttahugmynd á þeirri forsendu að svona saga væri engin \"þungavigtarfrétt\". Ég skal viðurkenna að ég var sjálfur hársbreidd frá þeirri ákvörðun. En þegar þetta er skrifað situr fréttin af litlu sápukúlustelpunni í efstu sætum þeirra frétta sem mest eru lesnar á hringbraut.is. Það bendir til að margir séu sammála um að það sé engin dvergfrétt að miðla sögum af öllu því fólki sem ekki bara sinnir niðurskrifuðum starfskyldum sínum af kostgæfni heldur leggur líka aukalega á sig ýmsa litla hluti, meðal annars til að sefa ótta, lægja þjáningar, gleðja lítið fólk. Hvað skyldu vera mörg þúsund dæmi um þetta innan menntastofnana landsins á hverjum degi? Hvað skyldu margar fallegar og hvetjandi sögur af leikskólum og grunnskólum gerast daglega, sem þó verða aldrei að fréttum?

Mannúðin lyftir verkum okkar en án þess að minna á hana getur sú staða komið upp að fjölmiðlar dragi upp villandi mynd af eigin samfélagi. Ef allar fréttir fjalla alltaf um dauða hluti, t.d. vélar og peninga, ýtir það undir þá ranghugmynd ráðandi stjórnmálastrauma að maðurinn sé ekkert annað en eigingjörn vél á markaði. Spyrja má hvort viðleitni fjölmiðla til að stuða og skelfa almenning, ala á ótta og sjokkera fólk hafi rofið skörð í fyrri hugmyndir okkar um samhygð. Við fjölmiðlafólk fjöllum út í eitt um  menn sem lemja aðra menn, við fjöllum um dauðan fisk án áfangastaðar og við fjöllum um ónýta íslenska krónu, en að vísu undiir rós.

Við gefum ekki nægan gaum að hinu fagra og smáa sem límir samfélög saman. Sá er lærdómurinn sem ég ætla að reyna að taka með mér inn í fréttamat framtíðarinnar. Sagan af litlu stúlkunni og sápukúlunum á Landspítalanum kann að vera stærri en hún sýnist. Og hún er í mörgum litum – eins og regnboginn...

(Þessi pistill birtist fyrst á KVIKUNNI á hringbraut.is)