„Sovét-Ísland, hvenær kemur þú?“, spurðu kommarnir um miðja síðustu öld. Þeir sáu þá austantjaldskommúnisma sem besta kostinn fyrir Ísland. En þeim varð ekki að ósk sinni því lýðræðisflokkarnir áttu staðfasta og öfluga forystumenn sem voru fastir fyrir og forðuðu þjóðinni frá böli ráðstjórnarinnar.
Þá er verið að vísa til manna eins og Ólafs Thors, Bjarna Benediktssonar (eldri), Gylfa Þ. Gíslasonar, Jóhanns Hafstein, Emils Jónssonar og Gunnars Thoroddsen.
Nú hafa lýðræðisflokkarnir á Íslandi engum slíkum forystumönnum á að skipa. Sjálfstæðisflokkurinn lætur sér lynda að sitja í vinstri stjórn sem leidd er af formanni sósíalista á Íslandi. Flokkurinn styður einnig Steingrím J. Sigfússon í embætti forseta Alþingis, manninn sem stýrði aðförinni að formanni Sjálfstæðisflokksins þegar Geir Haarde var dreginn fyrir Landsdóm og dæmdur, einn manna.
Sósíalistana í ríkisstjórninni dreymir um völd og meiri völd en þeim voru ætluð í kosningum. Svo virðist sem veiruvandinn verði þeim tilefni til að skerða sjálfstæði landsmanna með margvíslegum hömlum og umdeildum takmörkunum. Við höfum séð mörg dæmi í heiminum um tilburði stjórnmálamanna til að hrifsa til sín völd og áhrif vegna þess vanda sem veiran hefur valdið. Þannig tilburða er því miður farið að gæta á Íslandi.
Formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins sitja aðgerðarlaus og láta þetta yfir sig ganga. Þau reyna bara að ganga gagnrýnislaust og brosandi í takt við formann íslenskra sósíalista sem reynir að hrifsa til sín meiri völd í boði samstarfsflokkanna í ríkisstjórninni.
Einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins andæfir þessari öfugþróun. Það er Sigríður Andersen, sem í liðinni viku gagnrýndi harkalega frelsisskerðingu vegna veiruvandans og tilburði stjórnvalda til vaxandi forræðishyggju. Með því sendi hún allri ríkisstjórninni viðvörun, því landsmenn munu ekki una því að Vinstri græn hrifsi til sín völd - þó vinir þeirra í ríkisstjórninni láti það yfir sig ganga átölulaust.
Sjálfstæðismenn munu þakka Sigríði Andersen þessa staðfestu í næsta prófkjöri enda vilja fæstir þeirra „Sovét-Ísland.“