Er sigríður andersen á leið út úr ríkisstjórninni?

Sjálfstæðisflokkurinn á engan annan kost en að fórna Sigríði Andersen og skipta henni út úr ríkisstjórninni. Flokkurinn hefði reyndar átt að vera búinn að því fyrir löngu. En eftir síðustu dóma sem fallið hafa henni í óhag þar sem Landsdómur hefur dæmt skipan hennar ólögmæta þegar gengið var fram hjá Eiríki Jónssyni og Jóni Höskuldssyni, verður ekki lengur vikist undan því að skipta Sigríði út. Ríkið var dæmt til að greiða þeim bæði miskabætur og skaðabætur. Nú er búið að margdæma dómsmálaráðherrann sekan. Á Vesturlöndum er hvergi boðið upp á að ráðherrar sitji áfram við völd eftir að þeir hafa hlotið dóma. Síst af öllu dómsmálaráðherrar.

 

Sigríður hjálpar ekki til með hrokafullri framkomu sinni. Í Kastljósi í gær svaraði hún með þóttasvip og ekki var til í dæminu að hún notaði tækifærið til að biðjast afsökunar eða sýna auðmýklt eða iðrun. Spyrill Kastljóss fór afar mjúkum höndum um ráðherrann og sleppti erfiðustu spurningunum, enda er hann fyrrverandi formaður ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi. Hann hefði mátt sýna meiri fagmennsku og spyrja Sigríði Andersen hreint út hvenær hún hygðist segja af sér, hvort það yrði í dag eða á morgun.

 

Sjálfstæðisflokkurinn er að skaðast mikið vegna framgöngu Sigríðar. Flokkurinn má ekki við frekari áföllum. Hann mælist nú í skoðanakönnunum með stuðning 20.8%-25% kjósenda sem getur ekki talist viðunandi hjá flokki sem var til skamms tíma með 35-40% stuðning í Alþingiskosningum. Það er ekki „pólitísk innstæða“ fyrir áframhaldandi veru Sigríðar Andersen í ríkisstjórn Íslands. Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur að skipta henni út á næstu dögum – nema hann sé búinn að gefast upp á stjórnmálavafstrinu.

 

Flokkurinn hefur nokkra kosti í stöðunni þegar Sigríður Andersen víkur úr ríkisstjórninni:

 

  1. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari flokksins, er löglærð og gæti tekið við af Sigríði án þess að kynjahlutföll raskist.
  2. Verði kynjahlutföll ekki látin ráða má ætla að Birgir Ármannsson geri tilkall til embættis dómsmálaráðherra en hann er með langa þingreynslu og löglærður.
  3. Öllum má vera ljóst að Páll Magnússon mun ekki taka því þegjandi að breytingar verði á ráðherraliði flokksins án þess að hann kæmi þá inn í stjórnina. Það er trúlega líklegasta niðurstaðan að hann yrði  ráðherra í stað Sigríðar Andersen. Þó ekki dómsmálaráðherra. Þórdís Kolbrún Gylfadóttir yrði færð yfir í dómsmálaráðuneytið en hún er lögfræðingur. Páll Magnússon tæki þá við ferðamála-og iðnaðarráðuneytinu sem yrði spennandi kostur fyrir hann.
  4. Einnig má ætla að Jón Gunnarsson og Brynjar Níelsson muni ekki sitja aðgerðarlausir hjá þegar ráðherrastóll Sigríðar losnar.

 

Ef Sjálfstæðisflokkurinn tekur sig ekki saman í andlitinu og skiptir Sigríði út, þá sendir hann landsmönnum þau skilaboð að Ísland eigi að hafa siðferðisviðmið í stjórnmálum sem eru áþekk því  sem tíðkaðist í gömlu Austur-Evrópu og í vanþróuðum löndum Afríku.

 

Rtá.