Í lögum um Seðlabanka Íslands, 1. gr., segir: „Seðlabanki Íslands er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins“. Í 2. gr. segir: „Aðsetur og varnarþing Seðlabanka Íslands er í Reykjavík. Í 3. gr., sem eru sú fyrsta um markmið og tilgang bankans, segir: „Meginmarkmið Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu verðlagi.“
Skv. þessu, er það kristaltær frumskylda Seðlabanka og seðlabankastjóra að stuðla að stöðugu verðlagi.
Í ljósi þessa er sú þróun gjaldeyris- og gengismála, sem átt hefur sér stað síðustu vikur, án þess að Seðlabanki hafi beitt sér nokkuð eða mikið gegn þeirri þróun, með öllu óskiljanleg.
Á nokkrum vikum, hefur gengi Bandaríkjadals farið úr 123 krónum í 143 krónur og evra úr 133 krónum í 156 krónur. Hefur krónan þannig fallið um 16-17%!!
Þar sem við Íslendingar erum mjög háðir innflutningi, og það telst hér þumalfingursregla að verðlag í landinu hækki um u.þ.b. helming af því sem gengi krónu fellur, er það með ólíkindum að nýr seðlabankastjóri skuli leyfa sér, annars vegar að beita ekki styrk bankans til að halda genginu stöðugu (með markvissum og öflugum kaupum á krónunni), og hins vegar að láta sem svo að þetta sé ekkert mál; muni ekki hafa áhrif á verðlag, verðbólgu eða lánavísitölu.
Hvaðan kemur honum sú nýja speki, sem brýtur í bága við alla fyrri reynslu!?
Undirritaður er gáttaður á þessari afstöðu, sem hann telur sýna skort á skilningi, fyrirhyggju og ábyrgð seðlabankastjóra.
Íslenzkt þjóðfélag er í óvenjulega viðkvæmri stöðu nú, eftir að erfiðir, margslungnir og langvinnir kjarasamningar hafa verið gerðir, m.a. lífskjarasamningarnir, sem byggja á og eru í raun skilyrtir því, að stöðugt verðlag haldist í landinu.
Dettur einhverjum heilvita manni – nema þá kannske seðlabankastjóra – í hug, að verðlag haldist stöðugt, við gengisfall krónunnar upp á 16-17%!?
Fyrir undirrituðum er það borin von, þó að olíuverð hafi fallið og heimsmarkaðsverð á margvíslegum varningi hafi fallið, vegna skorts á eftirspurn vegna kórónaveirunnar, en um leið og eftirspurnin kemur aftur, að mati undirritaðs strax í apríl-maí, þegar líka við förum aftur að kaupa inn, kann snögg og samansöfnuð eftirspurnaralda að koma með þeim krafti, að framleiðsla og framboð hafi ekki við.
Munu þá innkaup til Íslands í erlendri mynt jafnvel hækka og við bætist svo fall krónunnar um 16-17%, sem gætu þá verið orðin 20%, eða meira, ef seðlabankastjóri flýtur áfram sofandi að feigðarósi.
Ef almennt verðlag í landinu fer upp um 5-10%, á næstu 3-6 mánuðum, verðtryggð lán hækka í takt við það og atvinnuleysi og tekjufall þeirra, sem þó halda vinnu, verður mikið – eins og allt bendir til – þá mun þetta andvaraleysi og aðgerðarleysi seðlabankastjóra í gengismálum hafa í för með sér, að alda verðhækkana mun ganga yfir íslenzkt þjóðfélag, þar sem kjarasamningar kunna að splundrast og friður breytast í heiftarlega deilur og illindi á versta tíma.
Það vakti sérstaka furðu undirritaðs þegar seðlabankastjóri viðhafði þessi ummæli í viðtali við Morgunblaðið 19. marz sl. :
„Gengi krónunnar hefur gefið eftir um 10% það sem af er árinu (reyndar var það 12-14%). Væri það eðlileg þróun miðað við stöðu mála og þakka mætti fyrir að við byggjum við sjálfstæða mynt sem tæki mið af því sem væri að gerast í hagkerfinu“.
Hvað er maðurinn eiginlega að fara þarna? Auðvitað er miklu betra að hafa mynt, sem hefur og tryggir stöðugleika, þegar annar og alvarlegur vandi myndast í hagkerfinu! Fljótandi og kraftlaus mynt, sem beygist og sveigist eins og laufblað í vindi verður auðvitað aðeins til þess að auka óöryggi og vandræði.
Og, þegar seðlabankastjóri talar um „eðlilega þróun“, hvað meinar hann þá? Er það eðlileg þróun, að gjaldmiðillinn okkar gefi eftir og svíki einmitt þegar hann þyrfti að sýna stöðugleika og styrk!?
Það er leitt að þurfa að segja það, en seðlabankastjóri á ekkert annað og betra skilið en falleinkunn fyrir þessa fyrstu handhöfn og embættisfærslu sína. Við verðum að vona, að hann sjái að sér og grípi nú til allra ráða bankans til að styrkja krónuna og tryggja þann stöðugleika, sem honum ber lagaleg skylda til.