Er sauðfjárrækt atvinnugrein eða lífsstíll?

Í miðju góðærinu kemur nú neyðarkall frá bændum og sláturleyfishöfum enn eina ferðina. Sauðfjárbúskapur virðist ekki ganga nægilega vel þessa stundina þrátt fyrir grillsumarið og allan ferðamannastrauminn en ferðamennirnir þurfa jú að borða á meðan þeir dvelja á Íslandi! Eitthvað virðist samt vera að hjá blessuðum bændunum.

 

Í atvinnugreininni landbúnaði tíðkast að hrópa á ríkið eftir hjálp ef eitthvað gegnur ekki nógu vel. Á ríkið endalaust að hlaupa til að aðstoða þessa tilteknu atvinnugrein ef á bjátar? Tíðkast það varðandi aðrar atvinnugreinar að ríkið borgi það sem upp á vantar til að dæmin gangi upp? Nei, aldeilis ekki.

 

Landsbyggðarþingmaðurinn Lilja Rafney Magnúsdóttir krefst þess að þegar í stað verði kallaður saman fundur í atvinnuveganefnd þingsins vegna slæmrar afkomu í sauðfjárbúskap. Hún vill að landbúnaðarráðherra mæti á fundinn svo og fulltrúar hagsmunaaðila og þrýstihópa.

 

Hvaða vitleysa er þetta eiginlega?

 

Hvers vegna ætti ríkissjóður að borga það sem upp á vantar hjá þessari einu atvinnugrein þó um tímabundna erfiðleika sé að ræða?

 

Ekki tíðkast að senda reikninginn til ríkisins ef heimsmarkaðsverð á áli fellu. Ekki heldur ef fiskmarkaðir erlendis eru útgerðinni erfiðir. Þá sæi ég svipinn á fjármálaráðherra ef hótelin í landinu sendu honum kröfu um fjárstyrki vegna þess að gistinóttum hefur fækkað. Ekki fer verslunin í landinu fram á ríkisstyrki þó hún verði fyrir verulegum búsifjum vegna komu Costco og fleiri alþjóðlegra auðhringa inn á íslenska markaðinn. Verslunin verður sjálf að bregðast við og mæta aukinni samkeppni með aðhaldi og öðrum ráðstöfunum.

 

Sama verður að gilda um landbúnað og aðrar atvinnugreinar. Það verða allar atvinnugreinar að bjarga sér sjálfar. Annars eiga þær ekki rétt á sér. Ríkissjóður er ekki gjafmildur jólasveinn.

 

Ef bændur vilja ekki líta á sauðfjárrækt sem atvinnugrein heldur lífsstíl, þá geta þeir ekki krafið ríkissjóð um að standa undir því sem upp á vantar til að ná endum saman.

 

Rtá.