Kjarninn var að greina frá því að Baldur Guðlaugsson lögfræðingur og dæmdur sakamaður fyrir innherjasvik, hefði verið skipaður formaður hæfisnefndar sem á að meta umsækjendur um starf skrifstofustjóra í atvinnuvegaráðuneytinu.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, skipar Baldur til trúnaðarstarfsins skv. Kjarnanum.
Í frétt Kjarnans segir: “Baldur Guðlaugsson var árum saman ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu. Hann var færður til í starfi eftir að ný ríkisstjórn tók við árið 2009 og yfir í menntamálaráðuneytið. Hann lét af störfum þar í október 2009 í kjölfar þess að sérstakur saksóknari hóf rannsókn á mögulegum innherjaviðskiptum Baldurs í aðdraganda bankahrunsins, en hann seldi bréf sín í Landsbankanum í september 2008 fyrir um 192 milljónir króna. Þann 7. apríl 2011 var Baldur dæmdur í tveggja ára fangelsi í héraðsdómi Reykjavíkur. Sá dómur var staðfestur í Hæstarétti í febrúar 2012. Baldur lauk afplánun sinni á árinu 2013. Hann hefur starfað sem ráðgjafi á lögmannsstofunni Lex frá haustinu 2012.”
Nú er gott og blessað (og þá ekki síst á þessu fámenna skeri okkar) að menn fái annað tækifæri. En eru það góð skilaboð til samfélagsins að verðlauna dæmdan sakamann, sjálfstæðismann, með þeim hætti sem sjálfstæðismaðurinn Ragnheiður Elín Árnadóttir gerir hér? Að veita honum æðstu ábyrgð? Að láta hann velja úr hópi 38 umsækjenda um yfirmannsstöðu í ráðuneytinu?
Eitt var að fylgjast með fréttum um að Baldur afplánaði ekki nema skamma stund refsingu sína á Kvíabryggju. Hann fékk að vera hjá Vernd, var farinn að praktísera lögmannsstarf á meðan hann afplánaði. Starfaði í bænum.
En nú þetta!
Hvaða skilaboð er verið að senda til hinna vammlausu hér á landi? Láta ráðherrar eins og kóngar gerðu forðum, að leyfa geðþótta að ráða för í stjórnsýslu? Gleyma ráðherrar að hér verða kosningar eftir eitt ár? Hvaða skilaboð er verið að senda hina ósýnilega Íslendingi sem aldrei lendir á sakaskrá, vinnur ötullega frá morgni til kvölds, verður aldrei græðgi eða glæpamennsku að bráð, þekkir kannski ekki rétta fólkið til að eiga kost á bónusum í skiptum fyrir klíkubræðralag, kýs frelsi og sjálfstæði, borgar sína skatta með kurt og pí, svæfir börnin að kvöldi dags, kennir börnunum að það borgi sig margfalt í lífinu að lifa heiðarlega. Hver eru verðlaunin fyrir það?
Nú dettur manni í hug að þú hafir gengið of langt í að ögra borgurunum, Ragnheiður Elín. Nú gætirðu verið komin í hóp þeirra ráðherra sem munu hafa spillingarfnykinn yfir sér um ókomna tíð. Fram til þessa varstu frægust fyrir að vera eina manneskjan í heiminum sem trúðir á náttúrupassafrumvarpið sem þínir eigin menn studdu ekki einu sinni sjálfir. Nú ertu komin í hóp með öðrum ráðherrum eins og Bjarna Ben sem bæði vegna Vafningsmálsins og nú síðast Borgunarmálsins og náfrændskapar við þann sem keypti, hefur misst mikinn trúverðugleika. Um Sigmund Davíð og sms-greiðslurnar hans plús allt hitt þarf ekki mörg orð að hafa. Gunnar Bragi Sveinsson styggði stóran hluta þjóðarinnar verulega í vikunni með því að ráða mann til sín sem vafi leikur á að hafi verið sá hæfasti. Ýfðust upp gömul sár eftir að hann þvingaði fram slit á ESB-málinu í blóra við fyrirheit og lýðræði.
Það eru til ráðherrar sem hér verða ekki taldir upp sem e.t.v. hafa ekki verið grunaðir um græsku og dettur manni strax í hug Ólöf Nordal, en er kannski svo komið að þeir séu í minnihluta? Og ef svo virðist þá - ótrúlegt en satt - komin upp hin stóra en gilda spurning:
Er ríkisstjórn Íslands siðvillt?
(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)
Uppfært kl. 19.05: Ragnheiður Elín segir í viðtali við Rúv að hún beri fullt traust til Baldurs. Fram hefur komið að hæfnisnefndin er skipuð af Sigurði Inga Jóhannssyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, en að höfðu samráði við Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.