Er ragnar þór að missa tökin?

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR hefur verið á miklu flugi frá því hann var óvænt kjörinn formaður VR fyrir einu ári. Hann hefur ekki sparað hótanir. Ragnar Þór talar fyrir átökum, upplausn og verkföllum enda er hann þaulvanur “aðgerðarsinni” og ólátabelgur.

 

Eftir að sálufélagar Ragnars sigruðu með yfirburðum í kosningum hjá Eflingu, þá hefur hann látið eins og uppreisnarliðið hafi nú öll tök á verkalýðshreyfingunni og geti ráðskast með forystu hennað að eigin geðþótta. Mörgum hefur hugnast sú tilhugsun illa.

 

En svo var kosið í VR. Þá kom á daginn að Ragnar Þór Ingólfsson hefur ekki einu sinni tök á sínu félagi. Hann stefndi að því leynt og ljóst að skipta út öllum stjórnarmönnum sem tilheyra fyrri tíma í félaginu. Hann ætlaði að koma sínu fólki fyrir í stjórninni til að ná þar meirihluta. En þetta mistókst algerlega. Ragnari Þór tókst einungis að koma tveimur mönnum af sjö inn í aðalstjórnina. Og einn af þremur í varastjórn fylgir honum að málum. Fyrsti varamaðurinn er ekki úr liði Ragnars en fyrsti varamaður situr flesta stjórnarfundi í fimmtán manna stjórn.

 

Ragnar Þór hefur því ekki þau tök á VR sem hann gerði ráð fyrir. Það er mikið áfall fyrir hann og er vísbending um að VR-félagar séu þegar búnir að fá nóg af honum og séu farnir að bíða eftir formannskosningum í félaginu sem verða eftir eitt ár. Þá verður Ragnar Þór Ingólfsson væntanlega felldur.

 

Ragnar Þór er eins og raketta á gamlárskvöld. Fer í loftið með eldglæðingum sem standa stutt yfir. Skömmu síðar fellur útbrunnið rekettuprik til jarðar.

 

Rtá.