Er pláss fyrir fleiri sósíalistaflokka?

Gunnar Smári Egilsson, talsmaður Sósíalistaflokks Íslands, fékk nokkurn uppslátt í sjónvarpinu á sunnudaginn þegar hann skýrði frá því að hann hygðist gefa kost á sér í framboð fyrir flokkinn í komandi Alþingiskosningum. Gott ef þetta var ekki fyrsta frétt í ríkissjónvarpinu.

Í langan tíma hefur öllum mátt vera ljóst að Gunnar stofnaði Sósíalistaflokkinn beinlínis í þeim tilgangi að skapa sér vinnu með því að reyna að komast á þing. Því var það í besta falli „ekki-frétt“ þegar staðfest var að hann ætlaði að reyna.

Eins og við mátti búast hafði Gunnar uppi stór orð og var nánast kominn á fullt í stjórnarmyndunarviðræður við sjálfan sig í þessum viðtölum á sunnudaginn. Hann gerði mikið úr því að flokkurinn hefði mælst með menn inni á þingi í skoðanakönnunum án þess að hafa kynnt frambjóðendur sína. Alveg má velta því fyrir sér hvort þetta sé ekki einmitt ástæða þess að flokkurinn hefur stundum mælst rétt yfir því lágmarki sem þarf til að koma fólki á þing. Styrkleiki flokksins hefur ef til vill falist í því að nefna mögulega frambjóðendur ekki á nafn!

Í viðtölunum hélt hann því fram að flokkurinn hefði í lengri tíma mælst með fimm til sex prósent fylgi sem þarf til að fá menn kjörna. Ekki er þetta nú alveg rétt. Hið rétta er að oftar en ekki hefur flokkur Gunnars verið fyrir neðan þessi mörk í skoðanakönnunum. Ef litið er á tvær nýjar kannanir sem birtar voru í síðustu viku, þá mældi önnur þeirra flokk Gunnars með 4,3 prósent fylgi, sem dugar ekki til að fá þingmann kjörinn, en hin mældi flokkinn í 5,4 prósent sem tryggði honum væntanlega þrjá þingmenn.

Gunnar hélt því fram í viðtölunum að það vantaði sósíalistaflokk á Íslandi. Þessi staðhæfing stenst enga skoðun. Vilji kjósendur styðja sósíalisma þá hafa þeir nú þegar úr mörgu að velja: Vinstri græna, Flokk fólksins, Pírata, og nú í aðdraganda kosninga einnig Samfylkinguna sem hefur verið að færa áherslur sínar yst á vinstri kantinn og getur með sanni kallast sósíalistaflokkur. Nægir í því sambandi að nefna skattahækkunarstefnu Oddnýjar Harðardóttur þingmanns Samfylkingar sem telur ofurskatta vera lausn allra vandamála.

Nægilegt framboð er því af sósíalistaflokkum á Íslandi og þar af leiðandi er hætt við að Gunnar Smári hafi ekki erindi sem erfiði með framboði sínu og neyðist til að leita annarra leiða til að útvega sér vel launaða og þægilega innivinnu eins og þingstörfin sannarlega eru.

- Ólafur Arnarson