Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra og formaður Framsóknarflokksins, er sagður hafa móðgað Vigdísi Häsler, framkvæmdastjóra Bændasamtakanna, með rasísku orðalagi í gleðskap á Búnaðarþingi fyrir helgina. Sigurður á að hafa gert lítið úr henni vegna litarháttar hennar en hún er af asískum uppruna. Hann á að hafa talað um hana sem „hina svörtu“ í áheyrn allmargra.
Sé þetta satt er Sigurður Ingi í vondum málum því að fólki – og síst af öllu ráðherrum – líðst ekki á okkar tímum að gera lítið úr fólki vegna litarháttar eða kyns. Sigurður Ingi hefur vafalaust gert sér grein fyrir þessu eftir að hann hafði látið umrædd orð falla.
Þegar fjölmiðlar greindu frá þessu og vitnuðu í fólk sem sagðist hafa heyrt niðrunarorð ráðherrans, sendi hann aðstoðarmann sinn fram á völlinn sem þvertók fyrir að Sigurður Ingi hafi viðhaft umrædd orð. Sigurður Ingi gerir sér væntanlega grein fyrir því að framkoma af þessu tagi getur spillt eða jafnvel rústað pólitískum ferli manna og því var aðstoðarmaðurinn sendur fram á völlinn til að neita.
Þetta minnir óþægilega á mál sem kom upp fyrir nokkrum árum þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir, innaríkisráðherra, hrökklaðist frá völdum vegna „lekamálsins“ svokallaða, en hún varð uppvís að upplýsingaleka og aðstoðarmaður hennar, Gísli Freyr Valdórsson (nú viðskiptablaðamaður á Morgunblaðinu), gekkst við leka og því að hafa sagt ósatt. Í kjölfar þessara mála hlaut hann dóm sem hann varð að afplána en Hanna Birna hrökklaðist frá og hvarf af vettvangi stjórnmálanna, rúin trausti.
Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður Sigurðar Inga, sagði í gær að fréttir af niðrandi orðum ráðherrans væru „algert bull“.
Vigdís Häsler birti í dag afdráttarlausa yfirlýsingu á Facebook sem birt er á vefnum ruv.is. Hún segir meðal annars orðrétt: „Duldir fordómar eru gríðarlegt samfélagsmein og grassera á öllum stigum samfélagsins. Þeir smætta verk einstaklinga og gjörðir niður í lit eða kyn.“
Hún undirstrikar varðandi þetta mál að hún viti hvað hún heyrði og hún viti hvað var sagt.
Í kjölfar yfirlýsingar Vigdísar hefur Sigurður Ingi gengist við orðum sínum og beðið afsökunar. Ljóst er hins vegar að aðstoðarmaður ráðherra hefur farið með ósannindi. Hæpið er að það hafi gerst án vitneskju ráðherrans.
Spurningar vakna um hvort afsökunarbeiðni ráðherrans dugi til að orð hans hafi ekki pólitískar afleiðingar fyrir hann og hvernig tekið verði á ósannindum aðstoðarmannsins?
Stóra spurningin er: Verður Sigurður Ingi Jóhannsson hin nýja Hanna Birna Kristjánssdóttir, sem þurfti að segja af sér ráðherradómi, og fer eins fyrir Ingveldi og Gísla Frey Valdórssyni? Það hlýtur að skýrast fyrr en síðar.
- Ólafur Arnarson