Leyniupptökur af samtölum nokkurra þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins á Klausturbarnum eru aðhlátursefni dagsins og verða kannski aðhlátursefni aldarinnar.
Hin hliðin á þessum makalausu Klaustursamtölum segir þá sögu að þingmennirnir sem í hlut eiga hafa enga sjálfsvirðingu.
Flestir þeirra hafa nú beðist afsökunar, sagst hafa verið að ljúga upp á sjálfa sig eða tekið það sem gerðist til alvarlegrar íhugunar. Frá þessu er ein undantekning: Formaður Miðflokksins segir að siðferðisvandinn liggi hjá huldumanninum sem tók hneykslið upp.
Þeir þingmenn sem urðu fyrir barðinu á þessum helstu vitringum Miðflokksins og Flokks fólksins hafa svo barið frá sér á viðeigandi hátt. Frá því er ein undantekning:
Fyrrverandi utanríkisráðherra segist hafa rætt við leiðtoga allra flokka um það snilldarbragð að skipa fyrrum þingmann VG í sendiherrastöðu til þess að koma skipun Geirs Haarde í einhvers konar umræðuskjól. Hann tekur sérstaklega fram að hann hafi átt fund með Katrínu Jakobsdóttur formann VG um þetta efni. Ummælin verða ekki skilin á annan veg en að hann telji að Katrín hafi samþykkt snilldarbragðið eða að minnsta kosti ekki andmælt því.
Ummæli Klausturþingmanna um samþingskonur og formann Samfylkingarinnar eru öll í hæsta máta niðrandi og óviðeigandi.
En forsætisráðherra er eini þingmaðurinn sem kemur við sögu í Klaustursamtölunum sem ekki hefur tjáð sig um þau.
Fyrrverandi utanríkisráðherra er þó að saka núverandi forsætisráðherra um að hafa sem leiðtogi VG í stjórnarandstöðu tekið þátt í leikfléttu sinni við skipun í sendiherraembætti er augljóslega gekk í berhögg við grundvallaratriði í siðareglum þingmanna og ráðherra og almenn viðurkennd siðferðileg viðhorf. Þetta er í raun alvarlegasta og þyngsta ásökunin sem sett er fram í Klaustursamtölunum.
Þjóðin hefur staðið í þeirri trú að Katrín Jakobsdóttir væri sterkari á siðferðissvelli stjórnmálanna en aðrir. Traust til hennar hefur fyrst og fremst byggst á því. Hætt er við að það viðhorf breytist fljótt ef hún getur ekki hreinsað sig af þessum fundi sem fyrrum utanríkisráðherra nefndi á Klausturfundinum.
Þögn forsætisráðherra um þetta er býsna hávær.
Einnig er athyglisvert að fréttastofa RÚV skuli sleppa því að geta um ásakanir fyrrum utanríkisráðherra á hendur formanni VG sem nú gegnir embætti forsætisráðherra. Önnur ummæli voru bein og óbein klúryrði en ásökunin á hendur formanni VG snýst um samþykki við siðferðilega vafasama stjórnarhætti.
Þessi hluti Klausturmálsins snýr beint að fyrrverandi utanríkisráðherra og formanni VG. Á ekki að tala um það?
rtá