Liam Fox alþjóðaviðskiptaráðherra Breta var í heimsókn hér fyrir síðustu helgi. Af því tilefni lét hann þau orð falla á Stöð 2 að engin þjóð í heiminum hefði stutt Brexit jafn dyggilega og Ísland. Þessi undarlega yfirlýsing kallar á skýringar af hálfu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.
Það er að vísu svo að ráðherrar í núverandi ríkisstjórn heyrðust ekki nefna aðild landsins að innri markaði Evrópusambandsins fyrr en nú fyrir nokkrum vikum. Fram að því fullyrtu þeir að Brexit væri stórkostlegt tækifæri fyrir Ísland.
Eftir að ríkisstjórnin lenti í andófi í eigin röðum með þriðja orkupakkann hafa utanríkisráðherra, ráðherra orkumála og formaður utanríkisnefndar Alþingis hins vegar notað hvert tækifæri sem gefist hefur til þess að lýsa því réttilega að enginn samningur hafi reynst Íslandi jafn hagstæður og gæfuríkur og samningurinn um innri markað Evrópusambandsins. Aðrir ráðherrar hafa ekki haft hátt um þá staðreynd.
En hvað fólst í Brexit? Jú, markmiðið með Brexit var að segja upp þessum samningi gagnvart Íslandi sem reynst hefur landinu happadrýgsti milliríkjasamningur allra tíma. Með öðrum orðum, Brexit var stefnt gegn íslenskum hagsmunum. Svo umfangsmikil hafa viðskiptin við Breta verið að neikvæð áhrif Brexit eru sennilega meiri hér en í flestum öðrum löndum innri markaðar Evrópusambandsins ef Írland er frátalið.
Þeir bráðabirgðasamningar sem gerðir hafa verið við bresku ríkisstjórnina bæta aðeins að hluta það tjón sem Ísland verður fyrir þegar Brexit verður að veruleika.
Vitaskuld var þetta ákvörðun sem breska þjóðin tók. Eðlilegt er og sjálfsagt að virða hana. Það hafa allar þjóðirnar á innri markaðnum gert og Evrópusambandið lagt sig fram við að semja við Breta sem enn vita þó ekki hvað þeir vilja. En engin þjóð sem tapar á ákvörðuninni hefur þó lýst yfir stuðningi.
Nú má vel vera að breski ráðherrann hafi verið að skrökva. Einhver kann að hafa sagt honum að Íslendingum þætti hrósið gott. Og honum hefur þá ekki dottið neitt snjallara í hug en að lofa Íslendinga fyrir meiri stuðning við Brexit en nokkur önnur þjóð hefur sýnt.
Þetta er athyglisvert í því ljósi að forseti Bandaríkjanna hefur ekki legið á liði sínu í stuðningi við Brexit og jafnvel gagnrýnt forsætisráðherra Breta fyrir lina framgöngu í því efni. En breski ráðherrann fullyrðir að ríkisstjórn Íslands hafa gengið lengra.
En hafi breski ráðherrann sagt satt þarf ríkisstjórnin að svara í hverju þessi einstaki og mikli stuðningur, sem slær Trump út, hefur komið fram. Það hefur farið leynt til þessa; nema talið, sem nú er hljóðnað, um miklu tækifærin sem ekki hafa komið í ljós enn.
Hafi Katrín Jakobsdóttir í raun og veru gengið lengra en Donald Trump í þessu efni eru það umtalsverð pólitísk tíðindi. Ef það er satt og rétt þarf einnig að skýra út hvers vegna ríkisstjórnin hefur gengið svo langt sem breski ráðherrann fullyrðir í stuðningi við aðgerðir sem ganga jafn harkalega á móti íslenskum hagsmunum?
Vonandi var breski ráðherrann þó að skrökva. Ríkisstjórnin þarf þá að segja það.
Í öllum venjulegum samskiptum þjóða hefðu ummæli af þessu tagi verið talin vanvirðing, jafnvel dónaskapur, í ljósi þess mikla skaða sem Brexit veldur Íslendingum.