Er hægt að kljúfa framsókn í þrennt?

Framsóknarflokkurinn er haldinn sjálfseyðingarhvöt. Það hlýtur að vera öðrum flokkum gleðiefni. Þeir þurfa ekkert að gera meðan Framsóknarflokkurinn sér sjálfur um að tortíma sér.

Á miðstjórnarfundi flokksins um komandi helgi er búist við hörðum átökum vegna hugmynda um að flýta landsfundi flokksins og kosningu formanns sem á að öllu óbreyttu að fara fram á næsta ári. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og stuðningsmenn hans vilja formannskosningu innan flokksins næsta haust. Þá ætlar hann að freista þess að brjótast til valda að nýju. Sigmundur Davíð heldur vafalaust að flokksmenn hafi gleymt Tortólahneykslinu sem leiddi til þess að hann hrökklaðist úr embætti forsætisráðherra í apríl á síðasta ári.

Nokkrir af þingmönnum flokksins hafa viðurkennt að andrúmsloftið í forystu flokksins sé “djöfullegt”, eins og einn þeirra orðaði það. Þingflokkur Framsóknar telur 8 manns. Þar af eru fimm fyrrverandi ráðherrar. Þeir þjást allir af erfiðum innantökum út af því að vera ekki lengur ráðherrar. Ráðherrafráhvarf er erfitt viðureignar. Þegar menn hafa einu sinni notið valdastólanna með öllu því sem fylgir þeim, þá er það daufleg vist að vera óbreyttur þingmaður. Engin völd, engir ráðherrabílar, engir ráðherrabílstjórar og engir þjónar á hverjum fingri eins og ráðherrar njóta.

Ekki þarf að koma á óvart að framsóknarmenn vorkenni sér um þessar mundir. Þetta mun trúlega skína í gegn á miðstjórnarfundinum um helgina.

Ýmsir telja að Framsóknarflokkurinn sé þríklofinn. Í fyrsta lagi eru þeir sem fylkja sér um formanninn, Sigurð Inga Jóhannsson, og vilja gefa honum vinnufrið til að efla flokkinn að nýju. Í öðru lagi eru þeir sem telja að illa hafi verið komið fram við Sigmund Davíð, fólk eigi að gleyma misgjörðum hans, Panamaskjölunum og öllu klúðrinu og sýna honum þá virðingu að endurreisa hann til formennsku. Loks eru þeir sem vilja að átökum milli Sigurðar Inga og Sigmundar Davíðs ljúki með því að báðir víki af vettvangi og að Lilja Alfreðsdóttir verið kjörinn formaður flokksins. Með því yrði reynt að sætta stríðandi öfl.

Lilja lætur lítið fyrir sér fara. Hún ætlar að leyfa körlunum að klóra augun hver úr öðrum. Svo verður hún tilbúin á hliðarlínunni ef kallið kemur.

Hún býr yfir klókindum. Enda dóttir Alfreðs Þorsteinssonar sem hefur alltaf flotið ofan á í Framsóknarflokknum eins og korktappi.

 

rtá.