Þau góðu tíðindi að Geir Haarde sé að fara í Alþjóðabankann opna ýmsa möguleika fyrir Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Geir verðskuldar þessa miklu upphefð og mun þar sóma sér vel sakir mannkosta, alþjóðlegrar menntunar og reynslu.
Þegar Geir lætur af sendiherraembætti í Washington næsta sumar opnast vissir möguleikar. Búið er að tilkynna um nokkrar hrókeringar í utanríkisþjónustunni. Þar á meðal að Benedikt Jónsson og Marteinn Eyjólfsson komi heim til starfa á “veðurstofu” utanríkisráðuneytisins en það er starfsvettvangur þeirra sendiherra sem kallaðir eru heim frá útlöndum til að hafa lítið annað fyrir stafni í ráðuneytinu en að tala um veðrið.
Í seinni tíð hafa ráðherrar varla þorað að skipa fyrrverandi og fráfarandi stjórnmálamenn í stöður sendiherra. Þegar Geir hættir opnast möguleiki á að skipa stjórnmálamann í hans stað sem sendiherra, þó það verði ekki í Washington. Margir aðrir eftirsóttir staðir koma þó til greina.
Þrír fyrrverandi ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa sótt fast að komast í utanríkisþjónustuna. Það eru þau Hanna Birna, Illugi og Ragnheiður Elín en Guðlaugur Þór hefur engan áhuga á að skipa neitt þeirra.
Nú hefur sú hugmynd kviknað að Guðlaugur Þór fari sjálfur í sendiherraembætti. Hann veit að honum mun ekki takast að ná hærra í flokknum. Flokkseigendur munu aldrei samþykkja hann sem formann þegar Bjarni hættir sem gæti orðið fyrr en síðar. Guðlaugur Þór hefur þegar átt sæti í þremur ríkisstjórnum og tvær þeirra féllu eftir stuttan tíma. Tæpast langar hann að bíða eftir að sú þriðja falli.
Verði Guðlaugur Þór sendiherra, áður en ríkisstjórnin fellur, þá gæti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir tekið við embætti utanríkisráðherra en hún er nú formaður utanríkismálanefndar. Það er góður undirbúningur auk þess sem Alþingi hefur sent hana á enskunámskeið!
Stigi Guðlaugur Þór þetta skref tækist honum það sem heppnast hjá fáum stjórnmálamönnum - að hætta á toppnum.
Rtá.