Er greiðslumat ráðherra mildara?

Stundin hefur upplýst að Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hafi nýlega fest kaup á raðhúsi í Fossvogi fyrir 64 milljónir króna og fengið 48 m.kr að láni hjá Kviku banka.

Þetta vekur athygli í ljósi þess að hann varð að selja íbúð sína til Orka Energy í fyrra á 53 m.kr vegna þess að skuldir áhvílandi á íbúðinni námu hærri fjárhæð en virði íbúðarinnar var. Eigandi Orka Energy kom þá til bjargar, keypti íbúðina, yfirtók alla skuldina og losaði ráðherra þar með úr greiðsluþröng. Þetta vakti mikla athygli í ljósi þeirrar miklu og einkennilegu fyrirgreiðslu sem ráðherra hafði veitt Orka Energy.

Svo virðist sem Illugi hafi ekki átt neitt eigið fé í umræddri íbúð við Ránargötu.

Því vakna nú spurningar um það hvernig hann getur nokkrum mánuðum síðar keypt heilt raðhús.

Til að fá 48 milljónir að láni í banka þurfa einstaklingar að standast greiðslumat. Þeir þurfa að geta sýnt fram á eigið fé og tekjur til að standa undir láni. Er líklegt að sá sem missti íbúð í fyrra vegna skulda standist það?

Hvaðan koma þær 16 m.kr sem upp á vantar?

Er hugsanlegt að Orka Energy eða eigendur hafi komið til hjálpar að nýju?

Eða aðrir sem njóta fyrirgreiðslu ráðherrans?

Vegna stöðu Illuga Gunnarssonar og forsögu fjárhagsvandræða hans er óhjákvæmilegt að upplýst verði um fjármögnun þessara kaupa á raðhúsi.

Því verður ekki trúað að banki fari mildari höndum um ráðherra en aðra viðskiptavini þegar kemur að greiðslumati. Fjármálaeftirlitið gæti hreinlega ekki liðið það.