Án þess að Dagfari vilji fullyrða neitt um hæfi bankaráðsmanna, er hann ekki fyllilega sannfærður um að fyrrum stjórnarmaður í hinu gjaldþrota flugfélagi WOW sé endilega heppilegasti aðilinn til að taka sæti í bankaráði Íslandsbanka á þeim krefjandi tímum sem fara nú í hönd hjá bankanum eftir allt sem á undan er gengið.
Víst er að svokölluð tilnefningarnefnd þurfti að vanda sig venju fremur þegar bent var á heppilega fulltrúa til að taka sæti í stjórninni. Nefndin á hrós skilið fyrir að hafa fengið Lindu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra rekstrar í Marel, til að taka við formennsku í bankaráðinu. Linda er snjöll kona og nýtur virðingar og trausts fyrir störf sín í æðstu stjórn stærsta fyrirtækis landsins. Væntanlega hefur þurft að beita hana fortölum til að taka við þessu vandasama hlutverki því að hún er þekkt fyrir að tefla sér ekki fram en leysir öll viðfangsefni sín vel af hendi sem hún tekur að sér á annað borð.
Tilnefningarnefndin gerði hins vegar ekki tillögu um Helgu Hlín Hákonardóttur, fyrrum regluvörð hjá Íslandsbanka fyrir hrun. Hún náði engu að síður kjöri og hermt er að lífeyrissjóðurinn Gildi hafi hvatt hana til að bjóða sig fram. Væntanlega er það þannig og þá hljóta einhverjir aðrir lífeyrissjóðir einnig að hafa stutt hana en hún hlaut nokkuð örugga kosningu.
Ekki verður fram hjá því litið að Helga Hlín Hákonardóttir átti sæti í stjórn WOW flugfélagsins sem því miður varð gjaldþrota með miklu brambolti vorið 2019. Um er að ræða eitt allra stærsta og flóknasta gjaldþrot Íslandssögunnar.
Nú er það svo að ekkert er refsivert við það að fyrirtæki fari í þrot. Fyrst og fremst er það sorglegt fyrir starfsfólk, viðskiptavini og hluthafa. En leiki einhver vafi á að staðið hafi verið að öllum fjárskiptum með réttum og eðlilegum hætti beinist gagnrýni – og ekki síður ábyrgð – að stjórn viðkomandi félags og öðrum æðstu stjórnendum.
Skiptaráðandi hefur enn ekki gefið neitt út um það opinberlega hvort lögfræðilegur ágreiningur sé um einhverjar ráðstafanir stjórnenda félagsins í aðdraganda gjaldþrotsins. Hinu er ekki að leyna að allt frá dapurlegum endalokum WOW hafa verið uppi vangaveltur um það í viðskiptalífinu hvort risastórt skuldabréfaútboð félagsins, sem var framkvæmt nokkrum vikum fyrir gjaldþrotið, standist skoðun út frá því hvort stjórn, forstjóri, fjármálastjóri, endurskoðendur, lögfræðilegir ráðgjafar og þau verðbréfafyrirtæki sem unnu að útboðinu og sölu þess hafi vitað eða mátt vita að félagið var ekki líklegt til að komast í gegnum skuldavanda sinn og var í rauninni á barmi gjaldþrots.
Hér skal ekkert fullyrt um þetta. En spurningar um stöðu félagsins á þessum viðkvæma tímapunkti eru áleitnar því að WOW sótti marga milljarða til kaupenda skuldabréfa og fór svo í gjaldþrot skömmu síðar. Þeir sem keyptu skuldabréf töpuðu allri þeirri fjárfestingu á fáum vikum.
Ef skiptaráðendur meta það svo að framangreindir æðstu stjórnendur WOW og ráðgjafar þeirra hafi vitað eða mátt vita um stórhættulega fjárhagsstöðu félagsins má gera ráð fyrir því að þeir muni láta reyna á réttarstöðu þeirra sem mun þá snúast um meint fjársvik, umboðssvik og önnur alvarleg afbrot sem munu þá falla undir sakamál og skaðabótamál sem þrotabúið gæti höfðað á hendur þessum aðilum.
Enn skal ítrekað að ekkert hefur verið gefið út um þetta en beðið er eftir viðbrögðum skiptaráðenda sem munu í fyllingu tímans gefa út skoðun sína á stöðu mála. Þá munu þeir annað hvort lýsa því yfir að allt hafi verið með réttum hætti eða birta ásakanir sínar.
Komi til þess að skiptaráðendur telji að um sakamál eða skaðabótamál sé að ræða hlýtur stjórn félagsins að vera kölluð til ábyrgðar, fyrst allra. Þar á meðal Helga Hlín Hákonardóttir, nýkjörin bankaráðsmaður í Íslandsbanka.
Miðað við öll vandræðin sem steðjað hafa að Íslandsbanka að undanförnu, hefði verið æskilegt að einungis veldist í stjórn bankans fólk sem algerlega væri hafið yfir vafa og væri hvergi í hættu varðandi trúverðugleika sinn og mannorð.
Spyrja má hvort Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hafi ekki nokkrar áhyggjur af þessari mögulegu stöðu.
- Ólafur Arnarson