Er fréttablaðið fyrir almenning eða elítuna?

Er Fréttablaðið blað almennings eða viðskiptaelítunnar á Íslandi? Það er spurning dagsins.

Sagt er að rof hafi orðið milli þings og þjóðar. Í raun mælast fáar stofnanir með minna traust hjá þjóðinni en Alþingi. Ein stofnun sem skorar þó lægra en þingið er fjölmiðlar. Hinir sömu fjölmiðlar og hömpuðu útrásinni fyrir hrun, sömu fjölmiðlar og klappstýrðu bólunni.

Fjölmiðlar fengu svakalegar ákúrur í Rannsóknarskýrslu Alþingis. Þeir fengu laka einkunn, voru sakaðir um að hafa ekki verið nægilega sjálfstæðir, höfðu ekki gætt gagnrýninnar hugsunar. Fjölmiðlum ber að véfengja, spyrja spurninga, aðgreina sig með kröftugum hætti frá stjórnmála- og viðskiptavaldi. Það er beinlínis gert ráð fyrir því við skipan samfélagsmála. Þess vegna eru fjölmiðlar kallaðir Fjórða valdið.

Hrunið er löngu liðin tíð og langt síðan útkoma Skýrslunnar varð að veruleika. En allt kemur fyrir ekki.  Sömu ósiðir hafa aftur tekið sig upp og áttu þátt í að Íslendingar flutu sofandi að feigðarósi og leiddi til efnahagslegra hamfara af mannavöldum. Á sama tíma og almenningur er orðlaus yfir frétt alra frétta þessa dagana, fréttinni sem rammar inn muninn á hlutskipti okkar almennings og formanns Framsóknarflokksins, hefur vakið athygli hve sumir af stærstu fjölmiðlum landsins hafa verið hlutdrægir í garð sjónarmiða forsætisráðherra. Það hefur ekki verið bara verið teprulegt og sorglegt að fylgjast með ótta og meðvirkni blaða- og fréttamanna hjá stóru miðlunum. Það hefur á köfum nánast verið glæpsamlegt að verða vitni að linkindinni þegar fyrrgreint eftirlits- og aðhaldshlutverk fjölmiðla er haft í huga, hið svokallaða varðhundshlutverk, sem miðar að því að huga að þörfum almennings. Varðhundar almennings eiga að urra og gelta þegar upp koma siðferðisleg álitamál af þeirri strærðargráðu að augljóst er að ferill valdamesta stjórnmálamanns landsins væri allur annar ef allt hefði verið uppi á borðinu þótt ekki hefði verið fyrr en daginn fyrir síðustu kosningar.
Eitt er að vera meðvirkur valdinu og sýna því linkind. Annað er að taka sérstakega upp hanskann fyrir þá sem verða uppvísir að málum sem sannarlega hefðu átt að koma fram í dagsljósið miklu fyrr. Í dag birtist í dag leiðari hjá Kristínu Þorsteinsdóttur útgefanda hjá Fréttablaðinu. Þar segir þetta: \"Í þessu samhengi eru dylgjur á Alþingi um að forsætisráðherra hafi leikið tveimur skjöldum í þessum viðræðum í besta falli hjákátlegar, og í versta falli sjúkdómseinnni á fárveikri pólitískri umræðu.\"
Fárveikri pólitískri umræðu?
Mætti minna á að eina ástæða þess að forsætisráðherrafrúin greindi frá hagsmunum forsætisráðherrahjónanna er sú að von er á afhjúpun hjá Jóhannesi Kr. Kristjánssyni og erlendu teymi rannsóknarblaðamanna um eignir ráðamanna í erlendum skattaskjólum.


Getur hugsast að þeir sem greiði Krisínu Þorsteinsdóttur laun fyrir leiðaraskrifin eigi sjálfir miklar eignir í skattaskjóli á Tortóla? Nú taka fjölmiðlar við, sagði þessi sami leiðarahöfundur út af öðru máli. Það snerist ekki heldur um almannahagsmuni heldur sérhagsmuni.


Blaðamenn hafa aðeins eina skyldu. Skylda þeirra er að sýna almenningi fullan trúnað. Sá trúnaður á að vera sterkari en samskipti blaðamanna við eigendur fjölmiðlanna. Sjálfum lífsbjörgunum skal fórnað fremur en að rjúfa trúnað við almannahagsmuni ef val kemur upp um það tvennt. Út á það gengur blaðamennska.