Er ekki komið nóg?

Í næstu viku verður kynnt ný vaxtaákvörðun Seðlabankans. Fastlega er búist við hækkun stýrivaxta í ljósi nýjustu verðbólgutalna. Verðbólgutölur Hagstofunnar, sem sýna mestu verðbólgu í áratug, eiga þó ekki að koma Seðlabankanum á óvart. Þrátt fyrir að Greiningardeildir bankana virðist koma af fjöllum vissu allir stjórnendur fyrirtækja sem flytja inn vörur að miklar erlendar hækkanir væru í pípunum.

Stór hluti verðbólgunnar stafar af erlendum hækkunum. Stærsti hlutinn stafar hins vegar af hækkun húsnæðisverðs, sem af einhverjum ástæðum er reiknað inn í vísitölu neysluverðs hér á landi en hvergi annars staðar í siðmenntuðum heimi.

Ljóst er að vaxtastefna Seðlabanka Íslands hefur engin áhrif á erlendar verðhækkanir sem stafa af hnökrum í aðfangakeðjunni vegna Covid og hækkun hrávöruverðs af sömu orsökum. Vaxtahækkun Seðlabankans slær ekki á þær erlendu verðhækkanir sem eru í pípunum. Þær koma verst við ungt fólk sem er nýbúið að fjárfesta í íbúðarhúsnæði

Fær má rök fyrir því að vaxtahækkanir Seðlabankans muni slá á verðbóluna á húsnæðismarkaði, en vaxtahækkunarferli nú minnir um margt á veiðimann sem tekur fallbyssu með sér á rjúpnaveiðar.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, hefur bent á að vaxtahækkun sé afleit leið til að slá á þenslu og verðhækkanir í hagkerfinu. Sú leið færi milljarða og milljarðatugi frá almenningi, og þá sérstaklega hinum launalægri, til fjármálakerfisins og fjárfesta.

Vilhjálmur hefur lagt til að fremur en að hækka vexti verði Seðlabankanum fengið vald til að leggja á skyldusparnað til að draga úr ráðstöfunartekjum almennings. Með þeim hætti yrði ekki tilflutningur fjár frá fólki til fjármálakerfis heldur tilflutningur eiginfjár fólks frá nútíma til framtíðar.

Þannig yrði fólk skyldað til að spara peninga til framtíðar fremur en að borga þá til banka og annarra lánadrottna. Færa má góð rök fyrir því að ekki sé eðlilegt að barátta við þenslu og verðbólgu færi fjármálakerfi og fjárfestum stórar fjárhæðir á silfurfati frá fólkinu í landinu.

Einnig má færa rök fyrir því að nú á 21. öldinni sé kominn tími til að nútímavæða peningastjórnun seðlabanka, þannig að ekki sé alltaf ráðist á venjulegt launafólk í þágu peningaafla. Það var kannski í lagi á 19. öld og fram eftir þeirri 20. En er ekki komið nóg?