Er búið að semja um niðurstöðu að tjaldabaki?

Það skyldi þó aldrei vera að búið sé að semja um niðurstöðu að tjaldabaki í deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins.

Ljóst er að vinnulöggjöfin á Íslandi er götótt og ónothæf þegar á reynir eins og nýjasta dæmið sýnir. Alþingi verður að láta málið til sín taka og gera nauðsynlegar breytingar á vinnulöggjöfinni nú á vormánuðum til að koma í veg fyrir að menn nýti sér veikleika og glufur til að tefla ágreiningi í pattstöðu eins og upp er komin.

Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari, valdi að stíga til hliðar í þessari einu deilu þó að hann hafi ekki þurft að gera það. Hann sýndi með þessu viss klókindi vegna þess að formaður Eflingar var búinn að útmála hann sem svarinn andstæðing Eflingar sem er ekki rétt. Aðalsteinn var einungis að sinna starfi sínu af fagmennsku en forysta Eflingar hafði ekki þroska og manndóm til að takast á við þá stöðu sem kom upp. Efling treysti félögum sínum ekki til að kjósa sjálfir um framhaldið og því þurfti að beita fantabrögðum.

Með því að víkja, þó að hann þyrfti þess ekki, opnaði sáttasemjarinn stöðuna og setti framhaldið í hendur ríkisstjórnarinnar. Guðmundur Ingi Guðbrandsson þurfti því að velja mann til að taka að sér verkefni sáttasemjara í skamman tíma í þessu afmarkaða deilumáli. Málið var þar með komið í hendurnar á ráðherra Vinstri grænna sem þurfti að velja til verksins mann sem er yfirlýstur sósíalisti eins og formaður Eflingar til að tryggja það að Efling gæti ekki haldið skollaleiknum áfram. Það hlýtur að vera að Ástráður Haraldsson hafi tryggt sér fyrirfram að Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, léti af herskáum aðgerðum og kæmi að samningaborði til að leysa málið. Ástráður þurfti ekki að taka þetta verk að sér og hann hlýtur að hafa tryggt sér viðunandi stöðu áður en hann lét til leiðast.

Ástráður er fyrrverandi eiginmaður Svandísar Svavarsdóttur ráðherra Vinstri grænna og á með henn tvö börn. Hann var því um tíma tengdasonur Svavars Gestssonar sem var einn helsti leiðtogi Alþýðubandalagsins á sínum tíma, grjótharður stjórnmálamaður. Sósíalistar geta varla vænst þess að fá meira innvígðan og innmúraðan flokksmann til að sinna verkefni af þessu tagi. Samtök atvinnulífsins hljóta að treysta Ástráði til að leiða málið til lykta og hafa væntanlega tekið honum vel enda er mikið í húfi að deilan leysist og sá skaði sem atvinnulífið og samfélagið eru að verða fyrir leysist sem fyrst. Báðir aðilar hafa hag af því að hoggið verði á þennan hnút af myndugleika. Því verður ekki trúað að ráðherra hafi skipað flokksbróður sinn í þessa stöðu nema með samþykki forystu Samtaka atvinnulífsins.

Ekki þyrfti að koma á óvart þó samið hafi verið um niðurstöðuna fyrirfram og að deilan leysist innan skamms með tillögu frá Ástráði sem standi uppi sem hetja.

- Ólafur Arnarson