Er brot hjartar þannig að verjandi sé að brenna hann á báli?

Brugðist er við sjúkdómum með aðgerðum, lyfjum, innlögnum eða meðferðum – en ekki opinberum aftökum og galdrabrennum í boði fólks sem þekkir lítið til málavaxta. Þannig er það alla vega í siðuðum ríkjum.

 

Ungur maður sem hefur verið að berjast við áfengissýki um árabil og hefur haft betur síðustu fjögur árin, varð tímabundið undir í glímunni við Bakkus um síðustu helgi. Það orsakaði óverjandi hegðun gagnvart annarri manneskju. Hann hefur viðurkennt mistök sín, beðist opinberlega afsökunar og ákveðið að leita strax aðstoðar vegna sjúkdómsins.

 

En vegna þess að báðir aðilar eru þjóðþekktir fjölmiðlamenn og samfélag okkar dvergsmátt, þá hefur þetta dapurlega atvik orðið að fjölmiðlafári sem tekið hefur marga daga. Hjörtur Hjartarson gerði alvarleg mistök með því að neyta áfengis sem hann veit að hann ræður ekki við. Hann mun hafa áreitt Eddu Sif Pálsdóttur starfskonu RÚV en þau voru par fyrir mörgum árum og urðu fræg fyrir leiðindaátök sín á milli sem einnig rötuðu í fjölmiðla. Hirti var vísað úr starfi vegna málsins. 

Fjölmiðlamenn eru opinberar persónur og eiga á hættu að fá harða meðferð almenningsálitsins ef þeir misstíga sig. Mjög margir fjölmiðlamenn þrá athygli og líkjast stjórnmálamönnum að því leiti. Ekki er ofsagt að ýmsir þeirra séu beinlínis athyglissjúkir. Mörgum finnst athyglissýki hvimleið og hún getur verið skaðleg en ekki eins hættuleg og áfengissýki. Fjölmiðlafólk ætti að gá að þessu áður en það tekur stórar áhættur í einkalífinu.

 

Hjörtur Hjartarson missteig sig illa og varaði sig ekki á Bakkusi. Hann þarf að gjalda með atvinnu sinni því dag lét hann af starfi sem vinsæll þáttagerðarmaður hjá Sýn. Hvað sem um slæma framkomu Hjartar má segja, verður ekki frá honum tekið að hann er prýðilegur þáttagerðamaður á sviði íþrótta enda hefur hann mikla reynslu og mikið vit á efninu, einkum knattspyrnu. En það er meira en unnt er að segja um marga af kollegum hans sem hafa gert sig gildandi í sjónvarpi og öðrum fjölmiðlum í yfirstandandi Heimsmeistrakeppni. Hjörtur á farsælan keppnisferil í knattspyrnu að baki, hefur orðið Íslandsmeistari með ÍA og markakóngur í efstu deild. Þetta er þó ekki rifjað upp til að afsaka ólíðandi hegðun hans undir áhrifum áfengis.

 

En það sem er merkilegast við þetta sorglega mál er framganga hóps kvenna sem starfað hefur við fjölmiðla, einkum RÚV. Þær stíga fram í kjölfar atburðarins og kerfjast þess að Hirti verði bannað að starfa við fjölmiðla, að hann verði útskúfaður að eilífu. Undir þá kröfu rita fjölmargar konur sem væntanlega vita ekki mikið um málavexti annað en það sem komið hefur fram í fjölmiðlum. Meira en hundrað konur leggja nafn sitt við kröfu um eilífa útskúfun án þess að hafa verið á vettvangi, án þess að hafa lagt sjálfstætt mat á atburði en skrifa undir í einhverri múgæsingu. Á miðöldum tíðkuðust galdrabrennur á Íslandi. Er sá tími runninn upp að nýju?

 

Hjörtur Hjartarson hefur misst vinnu sína og er að sækja sér aðstoð vegna veikinda sinna. Er það ekki nóg í bili? Finnst þessum meira en hundrað konum það til sóma að sparka í liggjandi mann? Hvar er mannúðin? Er hún jafnvel týnd og tröllum gefin? Er allt í lagi að láta stjórnast af hatri og refsigleði?  Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steiniunum.

 

Allt er þetta gert í nafni jafnréttis kynjanna. Ætli jafnréttið gildi í báðar áttir eða bara gagnvart konum?

 

Ef sá sem braut af sér drukkinn hefði verið kona og þolandinn karl, hefðu þessar rúmlega hundrað konur skrifað undir kröfu um að konan yrði útskúfuð frá fjölmiðlum að eilífu? Ég hef enga trú á því. Þær hefðu frekar sagt: Ansans óheppni, hún hefur verið undir svo miklu vinnuálagi. Gengur betur næst. Jafnrétti virðist að þeirra mati einungis ganga í aðra áttina.

 

Það er nú öll stórmennskan.

 

Rtá.