Náttfari birti pistil þann 16. október sem hefur ekki vakið þá athygli sem hann vænti. Þessi pistill er birtur hér að nýju enda má halda því fram að efni hans eigi fullt erindi við kjósendur
http://www.hringbraut.is/frettir/category/15/steingrimur-bjarni-og-milljardarnir-sem-hurfu
Þarna er vikið að því sem margir hafa haldið fram að Steingrímur J. Sigfússon hafi gengið mun lengra í vinstri stjórninni árin 2009 til 2013 í að ráðskast með stóru viðskiptabankana en valdheimildir hans leyfðu.
Fjallað var um þetta í skýrslu þeirri sem kennd er við Vigdísi Hauksdóttur og Guðlaug Þór Þórðarson. Af einhverjum ástæðum var efni skýrslunnar þaggað niður, bæði af fjölmiðlum og innan þingsins. Því hefur ekki enn verið svarað hvers vegna Einar Guðfinnsson, forseti Alþingis, úrskurðaði að skýrslan væri ekki skýrsla í skilningi þingsins og því fékkst hún ekki rædd á vettvangi Alþingis.
Þeir hörðustu sem Náttfari hefur rætt við, halda því fram að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi kippt í einhverja spotta því hann sé í einhvers konar leynilegu bandalagi við Steingrím J. Sigfússon. Því hefur verið haldið er fram að Steingrímur hafi gert Bjarna og fjölskyldu hans stóra greiða rétt eftir hrun, þegar Steingrímur hafði mikil völd í bankakerfinu. Náttfari leggur ekki mat á þessar fullyrðingar. Þeim hefur þó ekki verið mótmælt.
Í lok pistilsins er því haldið fram að frá þessum tíma hafi Bjarni Benediktsson verið Steingrími J. handgenginn.
Eftir helgina kemur á daginn hvort eitthvað er til í því að Bjarni og Steingrímur hafi lengi unnið að því að mynda saman ríkisstjórn þar sem Bjarni yrði forsætisráðherra en Steingrímur Sigfússon forseti Alþingis.
Sjáum til eftir kosningar.