Engar líkur eru taldar vera á því að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra muni sætta sig við að Þórdís Kolbrún Gylfadóttir verði gerð að formanni Sjálfstæðisflokksins þegar Bjarni Benediktsson lætur af formennsku og hættir í stjórnmálum síðar á þessu ári. Æ fleiri hallast að því að nú sé unnið eftir áætlun sem gengur út á að Bjarni hætti á næsta landsfundi flokksins og freisti þess að tryggja kosningu Þórdísar Kolbrúnar í sinn stað. Hún gegnir nú varaformennsku í flokknum eins og kunnugt er og tók við embætti dómsmálaráðherra í síðustu viku þegar flokksforystan mannaði sig loks upp í að losa sig við Sigríði Andersen sem hefur verið flokknum þung í skauti vegna ítrekaðra klúðursmála en hún hefur hlotið dóma fyrir embættisafglöp.
Guðlaugur Þór er hins vegar reyndasti þingmaður flokksins og er talinn hafa öflugt bakland stuðningsmanna bæði í Reykjavík og út um allt land. Guðlaugur er sá eini af núverandi forystumönnum Sjálfstæðisflokksins sem hefur stöðugt lagt rækt við grasrót flokksins. Hann hefur á sínum snærum óvígan her stuðningsmanna sem hann getur ræst út með skömmum fyrirvara. Ekki ósvipað og Albert Guðmundsson var þekktur fyrir. Komi til þess að flokkseigendur freisti þess að ganga framhjá Guðlaugi Þór þegar Bjarni stígur niður, þá mun hann taka slaginn við Þórdísi Kolbrúnu eða hvern annan sem teflt yrði fram. Gulli mun bera sigurorð af hverjum sem er.
Fyrrnefnd áætlun gengur út á að Þórdís Kolbrún muni í næstu kosningum leiða lista flokksins í Suðvesturkjördæmi en hún býr í Kópavogi. Bjarni Benediktsson leiðir nú lista flokksins þar. Þetta mun þrengja að Jóni Gunnarssyni sem flokkurinn verður að sýna einhverja virðingu í staðinn. Hann gæti því verið á leiðinni inn í ríkisstjórn á næstu vikum sem sárabót fyrir að fá ekki að taka við forystu í kjördæminu þegar Bjarni hættir. Komi til þessa mun Þórdís Kolbrún hverfa úr ferðamála-iðnaðar-og nýsköpunarráðuneytinu, sem Jón tæki þá við, og einbeita sér að dóms-og kirkjumálaráðuneytinu. Talið er að þetta geti styrkt stöðu hennar vegna þess að hún gæti skapað sér nýtt upphaf í dómsmálaráðuneytinu þar sem allt er í uppnámi eftir vægast sagt brösóttan feril Sigríðar Andersen. Þórdís mun freista þess að verða bjargvættur á þeim bæ.
Þá er á það bent að Þórdís hafi ekki skilað neinum árangri í ferðamála-iðnaðar-og nýsköpunarráðuneytinu á þeim tveimur árum sem hún hefur ráðið þar ríkjum. Menn minnast ekki neinna umbótamála sem hún hefur komið í gegn á þó þetta löngum tíma. Þriðji orkupakkinn hvílir eins og mara á ráðuneytinu og Þórdís hefur ekki leyst nein mál í tengslum við hann en frestað málinu ítrekað. Það yrði henni því kærkomið að losna úr þessu ráðuneyti. Jón Gunnarsson er hins vegar líklegur til að ganga rösklega fram í málefnum ráðuneytisins komist hann þar að.
Spennandi verður að fylgjast með þeim breytingum og átökum sem framundan eru í Sjálfstæðisflokknum. Þórdísi Kolbrúnu er greinilega ætlað mikið hlutverk í flokknum þó ung sé að árum og óreynd. Þrátt fyrir reynsluleysi þykir hún koma vel fyrir og bera af öðrum forystukonum flokksins, bæði hvað varðar vitsmuni og útlit. Hún birtist í fjölmiðlum eins og vönduð tískudrós á meðan öðrum mætti frekar líkja við óumbúin rúm. Framkoma og útlit ráða ekki úrslitum en skipta þó vissulega máli.