Er ari edwald að kaupa fréttablaðið?

Í viðskiptalífinu er orðrómur á kreiki um að Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar, sé að kaupa Fréttablaðið af Ingibjörgu og Jóni Ásgeiri, ásamti hópi fjárfesta. Fyrr í haust kom fram að blaðið væri komið í formlegt söluferli á vegum Kviku banka. Ari er fyrrverandi forstjóri 365 miðla og þekkir því til á þessum vettvangi.

 

Þegar ljóst var að Fréttablaðið væri til sölu ef rétt verð fengist, heyrðust strax vangaveltur um að fjárfestar úr sjávarútvegi og landbúnaði myndu reyna að kaupa blaðið til að tryggja svipað eignarhalda á því og Morgunblaðinu. Eins og kunnugt er eiga sægreifar mestan hluta af Árvakri hf. sem gerir út Morgunblaðið sem beitt er grímulaust í hagsmunabaráttu sjávarútvegs og landbúnaðar. Þá hefur blaðið stutt dyggilega við hægri arm Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokkinn og Miðflokkinn. Andstaða gegn ESB, evru og útlöndum einkennir einnig stefnu Morgunblaðsins.

 

Ljóst er að Samkeppnisstofnun mun aldrei heimila kaup Morgunblaðsins eða hluthafa þess á Fréttablaðinu. Þess vegna verða sægreifar að stilla upp öðrum eigendahópi úr sínum röðum til að kaup þeirra á Fréttablaðinu yrðu heimiluð. Ari Edwald hefur nú um skeið unnið með þessum öflum í stöðu forstjóra Mjólkursamsölunnar sem lýtur stjórn Þórólfs Gíslasonar, kaupfélagsstjóra Kaupfélags Skagfirðinga, sem á 15% hlut í Árvakri hf. Ari var áður áhugasamur Evrópusinni og félagi í Já-Íslandi en hætti því jafnskjótt og hann var ráðinn í stöðu forstjóra MS. Hann þykir því mjög heppilegur til að leiða kaup hagsmunaaðila í sjávarútvegi og landbúnaði á Fréttablaðinu. Ari hefur starfað talsvert með aðstandendum Morgunblaðsins og var til dæmis í kosningastjórn Davíðs Oddssonar fyrir forsetakosningarnar 2016 ásamt Eyþóri Arnalds. Eins og menn muna galt Davíð afhroð í þeim kosningum og hlaut einungis 13% atkvæða og lenti í fjórða sæti.

 

Komi til þessa þá mun þetta leiða til talsvert breyttrar stöðu á íslenskum fjölmiðlamarkaði en Fréttablaðið hefur hingað til megnað að framfylgja frjálslyndri ritstjórnarstefnu sem verið hefur óháð stjórnmálaflokkum og hagsmunahópum.

 

Tekið skal fram að hér er um óstaðfestan orðróm að ræða. Nöfn meðfjárfesta Ara hafa verið nefnd en þeirra verður ekki getið hér að svo stöddu.

 

Rtá.