Sigurjón M.Egilsson, þrautreyndur blaðamaður í áratugi, stýrir umræðum í þeim ágæta þætti Pressunni á Hringbraut. Í síðasta þætti fékk hann til sín þau Sigríði Dögg Auðunsdóttur, formann Blaðamannafélags Íslands, og Ólaf Stephensen, fyrrum ritstjóra Fréttablaðsins og fleiri blaða, nú framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda.
Þegar búið var að fjalla ítarlega um stríðið í Úkraníu ákvað Sigurjón að venda kvæði sínu í kross og spurði viðmælendur sína hvað þeim þætti um þau ósköp, sem fram hefðu komið í fjölmiðlum, að vænta mætti þess að stærstu fyrirtæki landsins ætluðu að greiða hluthöfum sínum samtals 80 milljarða króna í arð nú í vor.
Heyra mátti á Sigurjóni að honum virtist þykja þetta hin mesta firra og afar hneykslanlegt. Var þáttastjórnandanum mikið niðri fyrir. Ólafur Stephensen tók þá til máls og benti á að arður væri eðlilegur hjá þeim fyrirtækjum sem gengju vel og gætu greitt hluthöfum arð. Auk þess yrði að setja umrædda fjárhæð í samhengi við stærð og verðmæti þeirra fyrirtækja sem greiddu arðinn.
Sigurjón vék þá talinu að veiruvandanum og taprekstri sumra fyrirtækja vegna hans. Sigríður Dögg tók undir orð hans og var komin í hneykslunargírinn. Ólafur Stephensen hélt sínu striki og ræddi málið af yfirvegun og með rökum. Hann sagði að vissulega hefðu sumar atvinnugreinar eins og ferðaþjónusta tapað miklu síðustu tvö árin enda fyrirhugaði ekkert þeirra arðgreiðslur. Hins vegar hefðu sumar aðrar greinar atvinnulífsins gengið vel, sem betur fer. Sljákkaði þá í Sigurjóni og Sigríði Dögg.
Staðreynd málsins er sú að það eru bankarnir fjórir sem greiða megnið af þessum arði. Einnig vátryggingafélögin, sem gengu vel eins og bankarnir á síðasta ári. Önnur fyrirtæki sem greiða arð leggja mun minna til umræddra 80 milljarða króna. Þetta hefði Sigurjón mátt hafa í huga.
En hvert rennur þessi arður? Arðurinn sem Landsbankinn hefur ákveðið, um 14 milljarðar króna, fer nær allur í ríkissjóð. Þá renna tveir þriðju hlutar af arði Íslandsbanka einnig til ríkisins. Arður Arionbanka, Kvikubanka og vátryggingafélaganna rennur að stærstum hluta til íslenskra lífeyrissjóða, enda eru þeir langstærstu hluthafarnir í skráðum félögum á Íslandi. Það sem eftir stendur rennur til tugþúsunda hluthafa fyrirtækjanna, stórra og smárra.
Með öðrum orðum: Bróðurpartur umræddra 80 milljarða rennur annars vegar til ríkissjóðs, sem er í eigu okkar landsmanna, og hins vegna til íslenskra lífeyrissjóða, sem einnig eru í eigu okkar landsmanna.
Sigurjón, þetta er ekkert svo slæmt eftir allt saman. Arðurinn gagnast þér, mér og okkur öllum að langmestu leyti!
- Ólafur Arnarson