Er allt í frosti hjá þér, frosti?

Frosti Sigurjónsson alþingismaður Framsóknar er hagfræðimenntaður en virðist samt ekki skilja einföld lögmál rekstrarhagfræði.

 

Hann er einn af mörgum þingmönnum sem komu nýjir inn á þing vorið 2013 og hafa valdið miklum vonbrigðum. Margir töldu að maður með reynslu úr viðskiptum og fjárfestingum eins og hann, gæti gert gagn í þinginu og haft áhrif á þingstörfin til góðs, einkum að því er varðar skilning á rekstri og fjármálum. Sú hefur ekki orðið raunin.

 

Frosti flutti t.d. tillögu á landsþingi Framsóknar sl. vor um að gera ætti Landsbankann að “samfélagsbanka” sem yrði ekki rekinn með hagnaðarmarkmiði. Þetta hugtak er ekki til og tillagan því vægast sagt einkennileg. Banki sem er ekki rekinn með hagnaðarmarkmiði er lítils virði. Talið er að þessi ríkisbanki sé um 200 milljarða virði en yrði lítils virði ef honum yrði breytt í “samfélagsbanka” að tillögu Frosta. Þá væri ríkissjóður að missa frá sér gríðarleg verðmæti, þess vegna 150 milljarða króna eða meira. Við þessa tillögugerð jókst ekki álit manna á Frosta og ýmsir spurðu hvort dvölin á Alþingi hafi haft svona afleit áhrif á hann.

 

Nú kemur Frosti fram að nýju að ræðst gegn því að Landsbankinn hrindi í framkvæmd sparnaðaraðgerðum að fjárhæð 700 milljónir króna á ári með því að koma sér upp hagkvæmu húsnæði fyrir höfuðstöðvar. Bankinn er á 16 stöðum í miðborg Reykjavíkur í dýru og óhagkvæmu leiguhúsnæði. Óhagræðið af þannig skipulagi er gríðarlegt og alls ekki boðlegt stærsta banka landsins. Eftir áralangan undirbúning hefur bankinn komist að þeirri niðurstöðu að hagkvæmast sé fyrir hann að reisa sér nýjar höfuðstöðvar við Tryggvagötu í Reykjavík fyrir 8 milljarða, losa sig við allt óhagkvæma húsnæðið á 16 stöðum og spara 700 milljónir króna á ári.

 

Allir sem eitthvað kunna í rekstri eða rekstrarhagfræði átta sig á því að þetta dæmi gengur vel upp og er bullandi arðsamt.

 

En þá birtist Frosti og talar um að þetta sé móðgun við þjóðina sem á Landsbankann og finnur þessum sparnaði allt til foráttu. 

 

Alþingismaðurinn heldur væntanlega að kjósendur séu móttækilegir fyrir poppulisma af þessu tagi og heldur að hann slái sig til riddara með þessu kjánalega tali.

 

En Frosti verður að átta sig á því að kjósendur eru engir asnar. Kjósendur sjá í gegnum loddaraskap stjórnmálamanna. Það er einmitt ein af ástæðum þess að fylgi Framsóknar hefur hrunið úr 24% niður í 10% á kjörtímabilinu.

 

En Frosti er ekki eini þingmaðurinn sem ætlar að reyna ómerkilegan málflutning vegna áforma Landsbankans um sparnað í húsnæðiskosnaði. Guðlaugur Þór Þórðarson telur að þetta sé út í hött og Elín Hirst tók í sama streng (það er eins og hún hafi fengið málið eftir að Alþingi fór í sumarleyfi en hún talaði allra þingmanna minnst á síðasta þingi, alls 111 mínútur á 10 mánuðum).

 

Hagfræðimenntaður maður eins og Frosti Sigurjónsson hlýtur að skilja rök Landsbankans fyrir 700 milljón króna sparnaði á ári og því mikla hagræði sem því fylgir að flytja starfsemi af 16 stöðum á einn stað. Í ljósi þess er málflutningur hans mjög ómerkilegur nema þá að hugsunargangur hans sé allur í frosti.

 

Það er hins vegna enginn að fara fram á að Elín Hirst eða Guðlaugur Þór skilji þetta.