Í vikunni birtist grein í Morgunblaðinu sem þótti líkjast skrifum Agnesar Bragadóttur frá fyrri árum þegar henni var falið að varpa fram „fréttum“ í þeim tilgangi að kanna viðbrögðin. Í þeim tilvikum var ekki verið að segja fréttir heldur reyna að búa til fréttir eða atburði.
Agnes þótti lagin við þetta enda nýtti forysta Sjálfstæðisflokksins sér stundum þessa þjónustu hennar ef skipta þurfti um frambjóðendur flokksins eða dreifa kviksögum um pólitíska andstæðinga.
En nú hefur Agnes látið af störfum fyrir aldurssakir og þá reyna aðrir að máta sig í fötin hennar.
Blaðið birti frétt með vangaveltum um mögulegan arftaka Kristjáns Þórs Júlíssonar sem hættir nú eins og kunnugt er. Fjórir eru myndbirtir. Athygli vekur að núverandi þingmaður flokksins í kjördæminu, Njáll Trausti Friðbertsson, er ekki einn þeirra. Það þykir til marks um að hann sé Morgunblaðinu ekki þóknanlegur í hlutverk leiðtoga flokksins fyrir norðan. Það er vægast sagt einkennilegt mat í ljósi þeirrar stöðu sem Njáll er þegar í.
Blaðið nefndi nokkur nöfn, einkum sveitarstjórnarmenn í kjördæminu. En síðan segir: „Jónas Þór Guðmundsson hæstaréttarlögmaður er meðal þeirra nafna, sem skotið hafa upp kollinum síðustu daga.“ Síðan er þess getið að hann sé Akureyringur og hafi orðið Íslandsmeistari í fótbolta með KA árið 1989. Fyrir nær aldarþriðjungi. Við athugun kemur fram að Jónas var varamarkvörður liðsins.
En hver er Jónas Þór Guðmundsson?
Hann rekur litla lögmannsstofu í Hafnarfirði og gegnir formennsku í stjórn Landsvirkjunar. Hann var einnig formaður hins umdeilda Kjararáðs. Jónas Þór er einn af bestu og nánustu vinum Bjarna Benediktssonar og hefur sinnt margháttuðum trúnaðarstörfum á vegum vinar síns.
Allt bendir til þess að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi nú gefið þau fyrirmæli norður að trúnaðarvinurinn Jónas Þór, fyrrum varamarkvörður í KA, eigi að leiða lista flokksins í Norðaustur kjördæmi næsta haust.
Fróðlegt verður að fylgjast með því hvernig heimamenn taka slíkum fyrirmælum.