Það hefur lengi loðað við Framsóknarflokkinn að reyna að auka fylgi sitt rétt fyrir kosningar með því að draga kanínur upp úr hatti og ýmsum álíka töfrabrögðum. Stundum hefur það tekist og kjósendur hafa látið blekkjast eins og vorið 2013 þegar þáverandi formaður Framsóknarflokksins lofaði að kreista 300 milljarða króna út úr hrægammasjóðum eins og hann kallaði þá. Allir vita hvernig það fór, enda hann sjálfur einn af hrægömmunum, sem komst þó ekki upp fyrr en vorið 2016.
Nú hefur arftaki hans, Sigurður Ingi, spilað út töfralausninni: Leysa húsnæðisvanda unga fólksins með \"svissnesku leiðinni\"! Fylgdi með afar einfölduð og grunn skýring þess efnis að sú töfralausn fælist í að leyfa unga fólkinu að taka út lífeyrissparnað og leggja á móti íbúðina að veði á fyrsta veðrétti. Svissneska leiðin! Hún hlýtur að vera fín! Svissarar eru jú grandvarir og vellríkir er það ekki?
Gylfi Arnbjörnsson í ASÍ var ekki hrifinn og mótmælti, fékk að launum óvenju hatramma persónulega árás frá Formanni Framsóknar: Gylfi væri bara á móti fólkinu í landinu! Ekkert minna! Svissneska leiðin var sem sagt málið og gamaldags Gylfi átti að mati Lilju ekkert með að véfengja þessa mektugu töfralausn Framsóknarflokksins.
En - bíðum við! Þá bara sisvona byrjaði enn eitt samsærið gegn Framsóknarflokknum (meira að segja þótt Sigmundur væri farinn með sitt lið) hjá Fréttastofu RÚV! Sjálfur stríðsfréttaritari Ríkisútvarpsins Jón Björgvinsson, búsettur í Sviss, fór af stað og skoðaði svissnesku leiðina. Hæg heimatökin. Hann sagði frá helstu atriðum hennar í Speglinum á miðvikudag, 18. október, og er auðvelt að hlusta á þann lestur af Sarpinum á vef RÚV.
Kemur þá ekki í ljós að ASÍ-Gylfi er nær því að fara rétt með um svissnesku leiðina heldur en formaður Framsóknarflokksins!
Í Sviss er þessi aðferð, að nota lífeyrissparnaðinn, vissulega til og dæmi um að hún sé notuð, en það er fráleitt algengt og leiðin er bara alls ekki fær ungu fólki! Í sem grófustu dráttum byggist hún á að taka út - eftir á - kannski 10 ára lífeyrissparnað úr samtryggingarsjóðum og nýta sem eigið fé við íbúðakaup. Þá eru nú fæstir lengur \"ungt fólk\" og svo þarf að gæta þess (sem Gylfi benti á) að við það tapast mikilvæg og verðmæt tryggingaréttindi eins og til örorkulífeyris og makalífeyris, fyrir nú utan sjálfan ellilífeyrinn.
Fór nú Framsóknarflokknum að vefjast tunga um höfuð og heyrist ekki mikið barið í bumbur lengur á þeim bæ til að flytja innblásnar ræður um að bjarga öllum með svissnesku leiðinni. Það hefur nefnilega aldrei gefist vel að lofa töfralausnum í íbúðamálum, hvorki þeirra ungu né hinna eldri. Margir hafa reynt, engum tekist enn að standa við stóru orðin.
Einn stjórnmálamaður hefur þó á þessu ári nokkrum sinnum vísað raunhæfa leið til að leysa úr húsnæðisvandanum, en það vekur náttúrlega ekki jafn mikla athygli og skrautlegar kannínur upp úr höttum!
Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar og félagsmálaráðherra, hefur margítrekað bent á lausn sem dugar, það er að sveitarfélögin sjái til þess að nægar lóðir séu í boði. Þetta er eins einfalt og verið getur: Ef ekki eru til lóðir verður ekki byggt! Og þrátt fyrir yfirlýsingar um að nú skuli Reykjavíkurborg byggja og kaupa svo og svo margar íbúðir er nú ekki enn farið að sjást í efndir þeirra loforða.
Fyrir liggur að á næstu árum vaxa úr grasi þúsundir ungmenna sem stofna heimili og þurfa þak yfir höfuðið. Meðan ekki eru til lóðir (nema fáar á uppsprengdu verði) skiptir ekki máli þótt vextir séu niðurgreiddir, fjárstyrkir veittir, lán hækkuð - verðið lækkar ekki enda er viðvarandi skortur á íbúðamarkaði.
Meira lóðaframboð þýðir nefnilega að meira er byggt, framboð eykst og verð getur lækkað. Þetta á við hér á Íslandi eins og alls staðar annars staðar í veröldinni.
Framsóknarflkknum líst ekki á skynsemi og raunsæi Þorsteins, reynir að villa um fyrir kjósendum með óljósum hugmyndum um innfluttar töfralausnir.
Þessi bellibrögð eru hins vegar farin að flækjast fyrir Framsóknarflokknum og næsta víst er að svissneska leiðin fær nú að lúta í gras!
Rtá.