Ríkisstjórnin hefur tapað níu þingmönnum frá síðustu kosningum og er komin niður í 26 þingmenn ef hafði 35 þingmenn á bak við sig þegar ríkisstjórnin var mynduð í árslok 2017.
Flokkur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra er í frjálsu falli og hefur tapað um helmingi fylgisins á kjörtímabilinu. Flokkurinn fékk 11 þingmenn kjörna en næði nú einungis 6 þingmönnum samkvæmt nýrri skoðanakönnun Zenter þar sem úrtak var 2.300 manns. Með því að missa fimm þingmenn myndu Vinstri græn missa einn þingmann í Norð-Austur kjördæmi, annan í SV-kjördæmi og þingmenn sína í Suðurkjördæmi og NV-kjördæmi. Þá félli einn þingmaður þeirra í Reykjavík.
Miðjuflokkarnir koma sterkir út. Samfylkingin næði 17,2 prósent fylgi og fengi ellefu menn kjörna en hlaut sjö þingsæti í kosningunum. Viðreisn fengi átta menn kjörna í stað fjögurra í kosningunum. Þá bæta Píratar einnig við sig og fengju átta þingmenn en höfðu sex eftir síðustu kosningar. Miðjuflokkarnir fengju þannig einum þingmanni meira en núverandi ríkisstjórnarflokkar.
Sjálfstæðisflokkurinn er að festast í 20 prósent fylgi og næði fjórtán þingmönnum og tapaði því tveimur sætum. Framsókn mælist með 8,2 prósent fylgi og sex þingmenn eins og Miðflokkurinn sem fengi 8,9 prósent. Flokkur fólksins héldi fylgi sínu og fengi fjóra þingmenn kjörna eins og í síðustu kosningum.
Sósíalistaflokkur Gunnars Smára og Sólveigar Önnu fengi engan þingmann kjörinn en fylgi flokksins mælist nú 4,5 prósent sem dugar ekki til að fá mann kjörinn á þing.
Það sem vekur mesta athygli við þessa könnun er að forsætisráðherra hafi misst helming fylgis Vinstri grænna á kjörtímabilinu. Kjósendur virðast ekki treysta henni lengur til forystu. Þá fer styrkur Evrópusinnuðu miðjuflokkanna ekki fram hjá neinum og eins hitt að Sósíalistaflokkurinn er ekki að ná neinu flugi og fengi engan mann kjörinn ef marka má skoðanakönnun Zenter.