Ákvörðun Kjararáð hefur vakið upp reiðiöldu í samfélaginu. 44% hækkun á launum þingmanna, ráðherra og forseta landsins þykir úr öllu samhengi við aðra framvindu á vinnumarkaðnum. Þá þykir framganga Kjararáðs með afbrigðum ósmekkleg þar sem ráðið birtir niðurstöðu sína deginn eftir kjördag þó hún hafi verið búin að komast að niðurstöðu miklu fyrr. Þessari hækkun var haldið leyndri þar til kosningabaráttan var búin og sjálfar kosningarnar afstaðnar. Kjararáði hefur væntanlega verið ljóst að þjóðfélagið færi á annan endann við þessar fréttir.
Ástæða er til að átta sig vel á því hvaða fólk er á bak við þessa umdeildu ákvörðun. Jónas Þór Guðmundsson er formaður Kjararáðs. Hann er einkavinur Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, skólabróðir úr lagadeild og samherji í Sjálfstæðisflokknum til áratuga. Jónas hefur m.a. verið varaformaður SUS og sóttist eftir formennsku þar en tapaði fyrir Sigurði Kára Kristjánssyni í formannskosningu. Bjarni hefur sett Jónas Þór í mörg trúnaðarstörf. Hann er formaður yfirkjörstjórnar SV-kjördæmis, hann er formaður uppstillingarnefndar Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi og Bjarni skipaði Jónas Þór formann Landsvirkjunar fyrir 2 árum, svo eitthvað sé nefnt.
Þó Bjarni Benediktsson þykist nú vera hissa á þessum úrskurði telur Náttfari að hann hafi alveg vitað um það sem var í vændum gegnum trúnaðarmann sinn og góðvin, Jónas Þór Guðmundsson, formann Kjararáðs.
Þá er fulltrúi Framsóknar í ráðinu heldur betur innvígður og innmúraður flokksmaður, Óskar Bergsson, sem áður var borgarfulltrúi Framsóknar í Reykjavík og myndaði meirihluta með Sjálfstæðisflokki og Hönnu Birnu. Um var að ræða fjórða meirihlutann á kjörtímabilinu 2006 til 2010. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn misstu meirihlutann í kosningunum 2010.