Hvernig hækkum við launin og bætum heilbrigðiskerfið?

Aðsend grein - Sigurjón Arnórsson skrifar:

Gera má ráð fyrir því að flestir Íslendingar séu sammála um að aukinn kaupmáttur launa og traust heilbrigðiskerfi sé af hinu góða. Þetta eru markmið sem hægt er að nálgast með skynsamlegri forgangsröðun þjóðar og stjórnvalda. Ef skoðaðir eru kostnaðarliðir þjóðarinnar og ríkissjóðs má hæglega finna fjármagn sem betur gæti nýst til fyrrnefndra markmiða.

Ein aðgengileg, en kannski ekki alltaf augljós leið, til að auka kaupmátt fólks er einfaldlega að minnka kostnað almennings. Vextir er stærsti kostnaðarliður íslenskra heimila og vextir á Íslandi eru óvenjulega háir vegna óstöðugs gjaldmiðils. Þannig taka íslensk fyrirtæki lán á háum vöxtum, sem leiðir til hærra vöruverðs og um leið skertan kaupmátt fólksins. Vaxtagreiðslur eru einn af stærstu útgjöldum ríkissjóðs. Með því að efla stöðugleika gjaldmiðils okkar og greiða niður skuldir ríkissjóðs, eykst kaupmáttur fólks sem og tekjur ríkissjóðs.

Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum Atvinnulífsins myndu íslenskir neytendur spara sér marga milljarða árlega væru tollar á kjöti felldir niður. Niðurfelling innflutningstolla þýðir aukinn kaupmáttar almennings. Árið 2013 var stuðningur ríkisins til landbúnaðar á Íslandi tæpir 20 milljarðar. Forstjóri Haga, Finnur Árnason, telur í grein í mbl.is frá 1. janúar að heildarkostnaður nýs búvörusamnings megi jafna á við um 180 milljarða króna. Þetta er fjármagn sem hefði getað runnið til íslenska heilbrigðiskerfisins ef forgangsröðunin væri önnur.

Árið 2002 voru tollar afnumdir af grænmeti. Það er ekki að sjá í dag að frjáls innflutningur hafi haft stórfelldar afleiðingar fyrir framleiðslu grænmetis innanlands. Á sama hátt má vona að aukin samkeppni í kjötframleiðslu muni leiða til þróaðri og samkeppnishæfari vöru hjá íslenskum framleiðendum.

Það er oft erfitt að forgangsraða. Ekki er hægt að fá allt sem maður vill og þá þarf að velja það sem skiptir mestu máli. Viljum við hafa áfram háa vexti með íslensku krónunni eða viljum við lægri vexti með öðrum gjaldmiðli eins og t.d. evrunni? Viljum við halda áfram að styrkja óarðbært landbúnaðarkerfi eða erum við tilbúin til að endurskoða tolla og ríkistuðning í skiptum fyrir meiri kaupmátt og betra helbrigðiskerfi?

Sigurjón Arnórsson 

viðskiptafræðingur