Harmleikur forsætisráðherra ekki einkamál


Jafnan er það svo að ef verk okkar borgaranna fara að mótast af andlegri vanheilsu grípur einhver í taumana. Íslendingar eru að sumu leyti umburðarlynd þjóð þegar sú staða kemur upp. Fordómar eru þó víða ennþá miklir gagnvart andlegum erfiðleikum, enda stundum erfiðara að mæla þá en líkamlega sjúkdóma. Ákveðinn hópur fólks trúir því að við eigum að geta læknað okkur sjálf af andlegum kvillum. Aðrir myndu kalla það geðveiki að halda slíku fram!

Tökum dæmi úr samfélagsumræðu um þingmann sem verður á að aka drukkinn. Við höfum nokkur dæmi um slíkt. Ekki alls fyrir löngu viðurkenndi Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknarflokksins að hann hefði ekið drukkinn og verið sviptur ökuleyfi. Fram kom krafa um afsögn og var hún byggð á því að þingmaðurinn hefði með gáleysi sínu sett fjölda vegfarenda í hættu, hann hafði brotið lög. Þeir sem héldu fram að þingmaður í nágrannalöndunum hefði þurft að segja af sér í sömu stöðu voru þó púaðir niður þegar þeir fóru fram á það sama hjá Höskuldi. Kannski lá eitthvað illa á honum sem hafði leitt til dómgreindarbrests. Við erum vön að gefa hvert öðru fleiri en eitt tækifæri, kannski vegna þess að við áttum okur sjálf á eigin breyskleikum og viljum ekki að dómharka kosti okkur ferilinn ef okkur verður á. Ekki satt?
Frekjuköst, æðisköst, þunglyndi sem leiðir við vondra embættisverka, maníur sem sprengja upp ástand, allt þetta fyrirgefum við oft og skýrum gjarnan með því að um ræði kannski bara tímabundinn mannlegan harmleik, vonandi fái viðkomandi færi á að rísa aftur úr eldstónni. En þegar æðsti þjóðhöfðingi Íslands hegðar sér þannig að enginn veit hvað snýr upp og niður, þegar landið er í upplausn, þegar borgarar landsins hafa engan vinnufrið vegna uppnáma, þegar alþjóðaorðspor Íslands er orðið að athlægi og efnahagur undir vaknar grunur um að eitthvað sé með öðrum hætti en hægt sé lengur að líða. Þá dugar ekki að eyða málinu með því að um einkamál sé að ræða, \"mannlegan harmleik\". En það voru einmitt orðin sem ég sem blaðamaður á Hringbraut fékk frá einum stjórnarþingmanna í morgun þegar falast var eftir viðbragði við ummælum formanns fyrrverandi formanns Geðhjálpar um forsætisráðherra landsins.
\"Þetta virðist vera orðið að máli fyrir geðsvið Landsspítalans að vinna með fremur en forseta og Alþingi,\" segir fyrrum formaður Geðhjálpar Sigursteinn Másson í frétt Hringbrautar og tengir á facebook við frétt Rúv þar sem segir að Sigmundur Davíð sé í raun ekki hættur.
Staðan er sú að enginn veit á þessu augnabliki hver stýrir landinu.
Her af fólki er augljóslega meðvirkur, framkvæmir vilja leiðtoga þess sem fyrrum formaður Geðhjálpar hefur þessi orð um: \"Mögulega þarf að svipta fráfarandi forsætisráðherra sjálfræði tímabundið á meðan honum er komið undir læknishendur og best ef að viðkomandi sveitarfélag, þar sem hann á lögheimili, taki það að sér samkvæmt lögum fremur en að sú þrautarganga sé lögð á hans nánustu aðstandendur,\" segir Sigursteinn Másson.
Sigursteinn getur þess ekki að við kjósendur og borgarar landsins eigum öll heimtingu á að vera kölluð aðstandendur góðs leiðtoga. Hinn mannlegi harmleikur er ekki einkamál Sigmundar Davíðs, míns ágæta kunningja frá þeim árum sem við vorum báðir starfsmenn Ríkisútvarpsins. Harmleikur forsætisráðherrans Sigmundar Davíðs er á góðri leið með að verða þjóðarharmleikur. Það gengur ekki. Þeir sem starfa næst forsætisráðherra hafa þá skyldu að bregðast við. Þeim ber að hafa almannahagsmuni að leiðarljósi og með því að stöðva vitleysuna mætti einnig færa rök fyrir að með því væri manneskjunni Sigmundur Davíð mestur greiði gerður.

Svo munum við fagna honum á nýjum vettvangi síðar. Ef vill. Enda hæfileikaríkur maður á ferð.

Björn Þorláksson