Mennskan rambar á hyldýpisbrúninni

Það er þriðjudagsmorgunn.

Dagarnir aftur farnir að líkjast því sem var.

Fyrir föstudagskvöldið síðasta, fyrir Parísarmorðin.

Samt liggur óhugnaðurinn enn í loftinu sem og óvissan.

Íslendingar hafa margir hverjir komið til Parísar, sumir margoft. Sjálfur hef ég átt sumar af bestu stundum mínum í þessari lífsglöðu borg.

Sú er ein ástæða þess hve voðaverkin koma mjög við okkur.

Önnur ástæða er nálægðin. Það tekur ekki langan tíma að ferðast milli Keflavíkur og Parísar. Sumir hugsa: Fyrst það gat gerist þar þá gæti það gerst hér. En það er harla ólíklegt svo ekki sé kveðið sterkar að orði.

Aðrar ástæður, æðri sjálfinu og persónulegum samanburði, hafa líka hreyft við okkur mörgum. Flestir eru sammannlegir og hafa eðlilega áhyggjur af veröldinni í þeirri mynd sem við þekkjum hana. Danskur þingmaður vill sprengja sýrlensk börn í tætlur til að senda skilaboð eins og segir frá í þessari frétt. Mennskan rambar á hyldýpisbrúninni og stutt í nýlendukomplexana og yfirlæti gamla yfirráðaheimsins.

Það eru líka atkvæði í óttanum eins og fram kom í sjónvarpsþættinum Kvikunni á Hringbraut. Deigir foringjar sem taldir eru líklegir til að lúffa undan ógn fá ekki mikinn stuðning meðal þjóða sinna ef óttinn hefur heltekið borgarana. Það er sennilega rétt sem Birgitta Jónsdóttir þingmaður segir að ekkert sé mikilvægara en að standa upp og segja: Ég er ekki hrædd. Með ótta getur myrkum öflum tekist að valda meiri skaða en nokkru sinni með  byssukúlu eða sprengju. Ef óttinn stuðlar að aðgreiningu, heift og fordómum gagnvart heilu og hálfu menningarsvæðunum og hver höndin verður upp á móti annarri, hefur illvirkjum tekist ætlunarverk sitt. Þá eru raunverulegar líkur á alheimsstyrjöld.

Shirin Ebadi, friðarverðlaunahafi Nóbels, sagði í viðtali sem ég tók við hana fyrir hönd Ríkissjónvarpsins fyrir nokkrum árum, að sammannleg virðing fyrir menningu og trúarbrögðum væri lykill að betri heimi. Hún sagði líka að Vesturlandabúar mættu ekki vera of óþolinmóðir, ekki mætti krefjast þess að á einu augabragði að þeir sem virt hafa ólíka menningu tækju upp „okkar gildi“.

Maður hugsar til þessara orða núna en á sama tíma hrærist upp sambland af reiði og ótta, sem hvetur a.m.k hluta hins vestræna heims til róttækra viðbragða.

En fyrst og fremst verður maður magnvana við að lesa, fræðast, reyna að hugsa þessi mál til hlítar.

Svarið getur aldrei falist í að ráðast að saklausum borgurum, börnum, konum, körlum með sprengjum og byssum – bara vegna þess að illvirkjar hafa gert það.

Að svara hatri með góðvild er sennilega hin þyngsta refsing sem hægt er að leggja á hermdarverkamennina, þá hina sömu og ólu upp vegalaus börn sem gereyðingarvopn. Beittu börnunum af hatri sem kostaði tæplega 200 manns lífið og þar með talin eru líf hinna ógæfusömu barna.

Mikið er rætt um landamæri, Schengen og öryggisgæslu, jafnvel aukinn vopnaburð hér á landi. Á okkar eigin öryggisvörnum innan frá ætti þó hvert og eitt okkar að reyna að ná stjórn fyrst. Áður en drastísk skref verða stigin.

Hugrekki er að aðhafast þótt maður sé hræddur. En viskan er okkur gefin til að láta ekki óyfirvegaða andartakstilfinningu hlaupa með okkur og heimsbyggðina alla í gönur. Jafnvel þótt sársaukinn læsist um beinin er jafnan best að hugsa áður en fólk framkvæmir. Sársaukinn minnkar ekkert þótt ofbeldi sé svarað með ofbeldi. Þvert á móti eru allar líkur á að hann stökkbreytist til hins verra og stigmagnist.