Þegar pabbi íslands brást okkur

9. nóvember árið 2008 skrapp Páll Skúlason heitinn, fyrrverandi háskólarektor, norður til Akureyrar og ræddi heimspeki og hrunið á kaffihúsi. Fyrir nánast sléttum sjö árum. Það var vel mætt til fundarins. Við hjónin fórum bæði til að hlusta á Pál og tókum með okkur nokkurra mánaða gamlan son okkar. Ég man vel þessa stund, m.a. vegna þess að við göntuðumst með hvað kornabarnið varðaði, að lengi byggi að fyrstu gerð. Til að fyrirbyggja annað hrun yrðum við Íslendingar að reyna að mennta komandi kynslóðir með öðrum hætti en áður. Siðferðislegur og veraldlegur trúnaðarbrestur var staðreynd á þessum tíma en þrátt fyrir blankheitin hafði líka kviknað von í brjósti um betri heim.

Enn hékk þó hrunstjórnin á völdum sínum.

Að loknu erindi Páls Skúlasonar, sem halda mætti fram að væri einhver ástsælasti andans maður síðari tíma, stakk ég niður penna og skrifaði hugleiðingar mínar. Ég veit upp á hár hvað ég skrifaði, því ég rakst af tilviljun á þetta skjal nú í vikunni í tölvugögnum, sjö árum eftir fundinn góða. Á þessum tíma starfaði ég sem fréttamaður á Stöð 2 en nýtti frítímann í að leita djúpt undir yfirborðið. Þetta var þegar við vorum öll ákveðin í að láta gott af okkur leiða – í þágu betra samfélags. En vitaskuld þorði ég ekki sem fréttamaður þá að birta skrifin mín um fundinn með Páli sem blaðagrein. Það hefði skapað svo mikinn umdeilanleika!

Svo segir í skjalinu um upplifun mína af erindi Páls Skúlasonar: Með fylgir upprunaleg fyrirsögn og hver stafur óbreyttur, sjö árum síðar:

Fyrrverandi háskólarektor segir að Geir Haarde verði að víkja

Fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, hinn mæti heimspekingur Páll Skúlason, flutti erindi um kreppuna og sat fyrir svörum á svokölluðu heimspekikaffihúsi, Bláu könnunni í dag. Þar sagði Páll m.a. að enginn hefði af ásetningi knésett íslenskt efnahagslíf en það breytti þó ekki því að ráðamenn þjóðarinnar YRÐU að víkja. Boða þyrfti til kosninga og fá nýja ríkisstjórn. Annað gengi ekki. Mér þótti sem fréttamanni sæta nokkrum tíðindum að Páll skyldi tala svo afdráttarlaust. 

Ég átti þess kost að spyrja Pál tveggja spurninga. Önnur var hvers vegna Geir Haarde og aðrir ráðamenn í ríkisstjórn hafa ekki viðurkennt sök sína í málinu. Páll svaraði að þótt honum líkaðii ekki als kostar við líkinguna væri margt sem benti til þess að Geir liti á sig sem landsföður, fjölskylduföður íslensku þjóðarinnar. Hann óttaðist sem \"pabbi\" Íslands hvað yrði um okkur ef hann viðurkenndi mistök sín. Væri hræddur við að valda okkur skaða og áhyggjum. Geir lítur sem sagt á okkur sem börn. Hvað finnst okkur um það? 
Hin spurningin laut að því hvers vegna Íslendingar urðu svo taumlaus efnishyggjuþjóð á afar stuttum tíma. Efnislega var svar prófessors Páls þannig að nýríki okkar, reynsluleysi og viðvaningsháttur okkar á sviðum sem önnur þróuð ríki hafa haft reynslu af síðan á miðöldum, hefði orðið okkur að falli. Því fór sem fór í bankaheiminum. Þar voru reynslulausir asnar í forsvari. 
Að auki langar mig að benda á að dr. Páll telur mikilvægt að endurheimta virkt lýðræði á ný. Hann vill þjóðaratkvæðagreiðslur og svoleiðis. Hann telur að ekki sé hægt að verða sérfræðingur í stjórnmálum, öll þjóðin verði að leggja í það púkk. Þá hafnar hann aðsjálfsögðu markaðslausnum og telur hagfræðinga einskis nýta. Það sé of mikil einföldun að leggja viðskiptalega mælistiku á lífið og allar undirdeildir þess.

Svo mörg voru þau orð.  Liðin sjö ár en samt finnst manni líkt og skynsemin sé enn líkt og fótum troðin og áköllin um úrbætur hin sömu. Sami dagurinn í dag og í gær. sami dagur og fyrir sjö árum.

Annar andans jöfur, Arnar Jónsson, leikari sagði nefnilega mjög svipað og Páll Skúlason í viðtali við Hringbraut nú í vikunni. Að efnishyggjan sé enn allt lifandi að drepa.  Arnar hefur nú kosið að ræða pólitík  með gagnrýnum hætti. Líkt og Páll forðum á kaffihúsinu. Á sama tíma hittir maður enn fólk sem hneykslast á að fólk nenni að hugsa um þessa helvítis pólitík! Andvaraleysið og í raun ábyrgðarleysið sem fylgir slíkri hugsun var einmitt ein höfuðorsök þess að svo fór sem fór fyrir hrun. Okkur ætti öllum að vera það keppikefli að láta ekki harmhrunssöguna endurtaka sig.

Því  langar mig að skrifa hér þakkarorð, sumpart síðbúin. Takk fyrir erindið, Páll Skúlason, takk fyrir að þora að stíga fram og ræða pólitísk álitamál þennan dag fyrir sjö árum, með áræði þínu vísaðirðu veginn. Takk einnig Arnar Jónsson fyrir þitt framlag. Hin samræmda íslenska skoðanakúgunarþögn hefur verið réttlætt með því að þögnin komi í veg fyrir umdeilanleika. En þá gleymist langtímamarkmiðið, að það kemur sumum öflum betur en öðrum að við þegjum.  Öfl sem hafa vanist að stjórna íslensku samfélagi með þöggun og klíkuskap jafnvel ofbeldi og óþokkaskap líkar þögnin best.  Þau hafa vanist því að stjórna með óttanum. Þau hafa komist upp með að útdeila gæðum til vildarvina og þeirra sem þegja eða hrósa því sem oft ætti ekki að hrósa. Hinir, þeir sem deila á, hafa fengið að éta það sem úti frýs, en að því kemur að réttlæti finnur sinn farveg.

Við erum hætt að þegja, hvar í stétt sem við stöndum. Stundum verður að segja hverja sögu eins og hún er. Þótt hún veki hörð viðbrögð og reiti ráðandi öfl til reiði. Ég efast ekki eitt andartak um að Páll Skúlason hefur fengið fýluleg símtöl frá ráðandi gæðingum að loknu erindinu fyrir sjö árum, þeir hafa skammað hann eftir að hann flutti mál sitt tæpitungulaust á kaffihúsinu. En þegar menn hafa náð aldri og þroska vita þeir líka að það að styggja goðin, vekja umdeilanleika – jafnvel þótt það kosti síðari tíma hallarboð til gapuxanna – er ekki áhyggjuefnið heldur er glæpur okkar allra sá að vera of hrædd við að ræða órétt, jafnvel þótt hann æpi á okkur.

Það fór um síðir svo að sá óréttur leiddi til Búsáhaldabyltingarinnar. Geir Haarde neyddist til að taka pokann sinn, en enn situr aðalhöfundur hrunsins á ritstjórastóli og reynir að halda því fram að það hafi verið hlutdrægir fréttamenn á Ríkisútvarpinu sem stóðu að byltingunni.

Það er ekki rétt eins og lesa má um orð Páls Skúlasonar hér að ofan. Skyni bornum verum var einfaldlega nóg boðið. Arnari Jónssyni er líka nóg boðið núna, þeim sem haka við Pírata í skoðanakönnunum er nóg boðið.  Ef enn á að svipta almenning nýrri stjórnarskrá og auknu lýðræðisumboði liggur alveg fyrir að ráðandi öfl munu fá reisupassann. Þá verða þau ekki ráðandi lengur.

Og kannski eru ráðandi öfl hætt að kunna að umgangast valdaumboð sitt. Þá verða stjórnvöld vondur pabbi með sama hætti og Páll útskýrði pabbahlutverk Geirs Haarde á kaffihúsinu forðum.

Pabbinn þarf að fara í meðferð, hann þarf að láta sig hverfa ef hann nýtur ekki lengur trausts innan eigin fjölskyldu.