Ég man á 10. áratug síðustu aldar þegar ég spurði sem blaðamaður á Degi-Tímanum lögreglustjóra nokkurn, staddan í miðju hneykslismáli, hvort hann hefði hugleitt að segja af sér.
Það mátti heyra saumnál detta í nokkrar sekúndur. Svo hreytti hann út úr sér að honum hugnaðist ekki umræða á þessum nótum. Hann skellti á mig og ég missti hann allar götur síðar sem heimild. Ég hafði rofið tabú.
Þetta var á þeim tíma sem íslenskir fjölmiðlamenn spurðu sjaldnast þeirrar spurningar hvort embættismaður eða pólitíkus ætti að segja af sér. Fæstir meðal almennings spurðu slíkrar spurningar á opinberum vettvangi. Það var skrafað í heita pottinum og hvíslað á göngunum. Oft voru fundin upp ýmis skrauthvörf til að verja elítuna réttmætum spurningum. Talað var um \"mannlegan harmleik\" þegar hvítflibbi hafði bíað upp á bak. En tímarnir hafa breyst. Internetið kom fram, lýðræðisvitund almennings jókst. Fólk fór að blogga og spyrja mikilvægra þjóðfélagsspurninga á samfélagsmiðlum. Sá tími er löngu liðinn að efsta lag samfélagsins geti keypt sér frið með þögn, þótta eða hótunum. Nútíminn krefst gagnsæis. Þegar ráðamaður er rúinn trúverðugleika verður það eilíft streð fyrir hann að sitja áfram, segja ósatt eða síbreyta sögu sinni.
Við sáum það í Hönnu Birnu málinu, sögunni sem ætti að vera öðrum ráðherrum víti til varnaðar. Við sáum það síðast fyrir nokkrum dögum, að tæpu ári eftir afsögn (sem varð þó ekki fyrr en allt of seint og var framkvæmd án nokkurrar auðmýktar) gerði Hanna Birna þau mistök að ætla sér aftur í álnir innan flokksins þegar leið að Landsfundi. Þá gripu öflin í taumana. Fyrirhugaðri ferð hennar í endurnýjað varformannsembætti lauk snautlega þótt ár væri liðið frá afsögn á ráðherrastóli. Alla þá ógæfu bæði þingmanns og þjóðar má reka til þess hvernig ráðherra þráaðist við að bregðast af ábyrgð við lekamálinu. Hún fékk síðasta séns til að stíga til hliðar á meðan lögreglurannsókn fór fram. Í stað þess reyndi hún að hafa áhrif á rannsóknina, sér og sínum í hag.
Nákvæmlega eins mun fara fyrir Illuga Gunnarssyni ef hann segir ekki af sér ráðherradómi á næstu dögum. Hann er rúinn trausti almennings. Má teljast heppinn að geta starfað áfram sem óbreyttur þingmaður. Kannski ætti hann að grípa tækifærið og líta til starfsframa innan einkageirans sem hann dásamar svo oft í orði. Hann á þar valdamikla vini eins og Orku Energy málið er til vitnis um. Vinir hans munu eflaust geta hjálpað honum að finna sér nýja framtíð – ef hann dregur það ekki of lengi að axla ábyrgð.
Annars er það ekki áhyggjuefni samfélagsins hvernig atvinnuleit Illuga muni ganga.
Áhyggjuefni samfélagsins er ef Illugi ætlar sér að leita uppi ófærur Hönnu Birnu og arka þær stefnulaus í þokunni.
Týndur maður kemur engu í verk.