Mannréttindavaktin eru alþjóðleg samtök sem berjast fyrir auknum mannréttindum

Í tíunda þætti „Íslands og umheims“ sem er á dagskrá Hringbrautar sunnudagskvöldið 2. júní 2019, kl. 20, er rætt við John Fisher frá Mannréttindavaktinni (Human Rights Watch). John stýrir vinnu Mannréttindavaktarinnar í Genf gagnvart Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, en fulltrúi Íslands á sæti í ráðinu.  

 Mannréttindavaktin eru alþjóðleg samtök sem berjast fyrir auknum mannréttindum og fylgjast með þróun mannréttinda og mannréttindabrota um allan heim. Samtökin eru óháð ríkisstjórnum og hafa aðalstöðvar í New York í Bandaríkjunum. Samtökin voru upphaflega stofnuð 1978 undir heitinu Helsinkivaktin til að fylgjast með framferði Sovétríkjanna sem höfðu skrifað undir Helsinki-sáttmálann. Fleiri vaktir voru stofnaðar sem fylgdust með öðrum ríkjum og árið 1988 sameinuðust þær undir núverandi heiti. 

 Sérstaða Mannréttindavaktarinnar felst einkum í mannréttindaskýrslum sem þykja ítarlegar og áreiðanlegar vegna mikillar vinnu sem er lögð í þær. Jafnrétti kynjanna, jafnrétti vegna kynhneigðar, pyntingar, notkun barna í hernaði, spilling stjórnvalda og dómskerfis eru meðal þeirra mála þar sem samtökin hafa verið hvað virkust.

 Rætt er við John Fisher um mikilvægi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna og setu Íslands í ráðinu.  Hvernig hefur smáríkið Ísland staðið sig á alþjóðavettvangi þegar kemur að mannréttindamálum?