Geta konur kosið konur til forystu?

Vinstri græn mælast með mun meira fylgi meðal kvenna en karla samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum. Þetta þarf ekki að koma á óvart vegna þess að Katrín Jakobsdóttir býður af sér góðan þokka og henni er teflt fram langt umfram aðra frambjóðendur flokksins í kosningabaráttunni. Skiljanlega. Engum þarf að koma á óvart að Visntri græn vilji fela Steingrím J. Sigfússon og fleiri frambjóðendur flokksins fram yfir kosningar.

Konur sem vilja kjósa konur til forystu á vegum Sjálfstæðisflokksins eru í miklum vanda. Flokkurinn býður nú ekki fram neina kvenskörunga og þrjár af þeim fáu konum sem þó sitja í núverandi þingsætum eru líklegar til að falla út af þingi ef marka má nýjustu kannanir. Þannig bendir flest til þess að flokkurinn missi fjögur þingsæti frá síðustu kosningum, þar af þrjár konur; Unni Brá Konráðsdóttur, forseta Alþingis, Valgerði Gunnarsdóttur og Hildi Sverrisdóttur.

Viðreisn teflir fram öflugum konum til forystu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ráðherra hefur tekið við formennsku í flokknum. Hún leiðir lista Viðreisnar í SV-kjördæmi. Jóna Sólveig Elínardóttir varaformaður Viðreisnar leiðir lista flokksins í Suðurkjördæmi. Hanna Katrín Friðriksson formaður þingflokks Viðreisnar leiðir lista flokksins í Reykjavík suður og framkvæmdastjóri flokksins er einnig ung kona, Birna Þórarinsdóttir. Þannig er óhætt að segja að Viðreisn tefli fram öflugum konum til mikilvægustu trúnaðarstarfa.

Helsta vonarstjarna Framsóknar er Lilja Alfreðsdóttir varaformaður flokksins. Framsókn hefur lagt höfuðáherslu á að auglýsa framboð hennar í Reykjavík suður en samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum mun hún ekki ná kjöri.

Hjá Samfylkingunni eru þær Oddný Harðardóttir alþingismaður og Helga Vala Helgadóttir lögfræðingur mest áberandi kvenframbjóðendur flokksins.

Ef konur vilja kjósa konur til forystu í komandi kosningum þá eru línurnar nokkuð skýrar.

 

Rtá.