Enginn talar um skattalækkanir með því að draga úr ríkisrekstri

Kosningabaráttan núna snýst því miður ekkert um að dregið verði úr skattheimtu með því að minnka ríkisumsvif. Kosningabaráttan beinist frekað að því að vekja athygli á rosalegum skattpíningaráformum Vinstri grænna sem ætla að hækka skatta um 50 til 70 milljarða á ári. Það gerist ekki nema með því að hækka VSK umtalsvert, vekja upp auðlegðarskatt að nýju sem lagður er á eldri borgara og efnafólk, hækka efsta þrep tekjuskatts og eitthvað fleira sem Steingrími J. og Indriða kæmi í hug þegar þeir hefðu hreiðrað um sig að nýju í fjármálaráðuneytinu.

Hvers vegna kemur Sjálfstæðisflokkurinn ekki fram með skýra stefnu sem gengi út á skattalækkanir í áföngum á öllu kjörtímabilinu? Hvers vegna dustar flokkurinn ekki rykið af prýðilegum tillögum nefndar sem Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson leiddu árið 2013 en tillögur þeirra í 115 liðum gengu út á sparnað í ríkisrekstri, m.a. með því að leggja niður óþarfar ríkisstofnanir eins og Bankasýsluna og margt fleira? Einungis 3 af þessum 115 tillögum var hrint í framkvæmd! Því ekki að finna þessa ágætu skýrslu og tefla fram vel rökstuddum tillögum um sparnað í ríkisrekstri og boða skattalækkanir á móti?

Það er sorglegt til þess að vita að umræðan í aðdraganda kosninga skuli ekki frekar snúast um að lækka skatta með samdrætti innan ríkisbáknsins heldur en að hún snúist um skelfileg skattpíningaráform Vinstri grænna.

Hvers vegna vekur enginn flokkur athygli á þeirri staðreynd að ríkið eyðir 45 krónum af hverjum 100 í hagkerfinu á Íslandi?  Er það ekki vegna þess að meðvirkni með ríkisbákninu er orðin öðru yfirsterkari?

Enn er tími til að taka þessi mál til alvarlegrar umræðu fyrir kosningar.

 

Rtá.