Forn vísdómsorð hljóða þannig að enginn fái flúið örlög sín. Þessi orð koma sannarlega í hugann þegar Framsóknarflokkurinn engist af innantökum í aðdraganda flokksþingsins, sem formaður flokksins vildi ekki halda og neyðist nú til að halda. Þar verður kosið um sæti formanns. Sigmundur Davíð fer ekki dult með það að hann vill halda áfram þrátt fyrir að hafa þurft að hrökklast frá í apríl á þessu ári vegna uppljóstrana um viðskipti þeirra hjóna í skattaskjólum. Morgunblaðið er gengið í lið með honum og birti tilbúið viðtal við eiginkonu hans sl. laugardag þegar blaðið var í aldreifingu um landið í 90.000 eintökum í stað þeirra 17.000 eintaka sem seljast af því ella. Einkennilegt er að eiginkonan finni loks hjá sér þörf til að fara í fjölmiðla núna en ekki fyrir 4-5 mánuðum þegar málið kom upp. Tímasetningin helgast af þeirri innanflokksbaráttu sem hafin er í flokknum. Allir sjá að þetta viðtal hefur verið hannað af almannatengslafólki og komið á framfæri með þessum hætti. Viðtalið er fyrirsjáanlegt og ótrúverðugt í ljósi tímasetningar og allrar áferðar þess. Þetta mun ekki hjálpa Sigmundi Davíð í þröngri stöðu.
Nú hefur Höskuldur Þórhallsson alþingismaður lýst því yfir að hann vilji leiða lista Framsóknar í Norð-Austur kjördæmi. Með því skorar hann Sigmund Davíð á hólm sem er meira en aðrir þingmenn og ráðherrar flokksins hafa þorað að gera hingar til en þeir hafa keppst við að sverja af sér metnað til að leiða flokkinn þegar rætt hefur verið um þá sem formannsframbjóðendur. Nú er allt eins víst að Höskuldur hafi brotið ísinn og að fleiri þori að leggja til atlögu við Sigmund Davíð.
Innvígðir, innfæddir og inngrónir framsóknarmenn hafa nú orð á því að spennan innan flokksins sé orðið óbærileg og nánast áþreifanleg vegna þessara átaka. Flestir flokksmenn vilja skipta um formann. Hvort óskakandidatinn er Höskuldur skal svo ósagt látið. Margir benda á Sigurð Inga eða jafnvel Lilju og Eygló. Með vali á Eygló í formannsembætti flokksins væri verið að fara úr öskunni í eldinn.
Þó staða Sigmundar Davíðs sé veik og afar snúin um margt, skyldi enginn afskrifa hann. Þarna er á ferðinni maður sem svífst einskis til að ná völdum og halda völdum. Þegar hann hrökklaðist frá í apríl sl. var ljóst að hann var fullkomlega ósáttur við það. Honum var gert ljóst að ef hann færi ekki væri ríkisstjórnin fallin. Sigmundur Davíð er með þannig siðferðismat að honum þykir ekkert athugavert við eigin gerðir og leynileg viðskipti í skattaskjólum. Mál hans er öðrum að kenna. Hann hefur ekkert gert rangt. Þetta er allt saman samsæri á vegum RÚV sem virðist hafa góða stjórn á heimspressunni sem stóð að baki þessu alþjóðlega samsæri, ef marka má kjánalegan málflutning Simgundar Davíðs og hirðsveina hans á borð við Jóhannes útskírara Skúlason og aðrar ótrúverðugar málpípur.
Nú ætlar Sigmundur Davíð að reyna að gera kosningamál úr Reykjavíkurflugvelli enn eina ferðina. Fyrst á flokksþingi Framsóknar og við val á lista flokksins í Norð-Austur kjördæmi og svo í kosningunum sjálfum, verði hann í framboði. Hann hefur kynnt eftiráskýringar sínar á því samkomulagi sem undirritað var af Jóni Gnarr, þáverandi borgarstjóra og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi innanríkisráðherra, að honum sjálfum viðstöddum. Nú þykist hann hafa sett einhver skilyrði sem enginn kannast við og nú ræðst hann að Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra vegna sölu ríkisins á landsspildu við flugvöllinn til Reykjavíkurborgar. Sigmundur vill nú, á síðsutu stundu fyrir kosningar í flokknum og til Alþingis, rifta öllu saman og er í raun og veru að segja samstarfsflokknum í ríkisstjórn stríð á hendur.
Haldi Sigmundur Davíð formannssætinu í Framsókn, má fullvíst telja að áframhaldandi stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn verði óhugsandi eftir kosningar. Varla þarf að reikna með því að vinstri flokkarnir vilji vinna með Sgimundi Davíð sem einkum er þekktur fyrir pukur með eignir þeirra hjóna í skattaskjólum.
Framsókn stendur frammi fyrir því að skipta um formann en verða ella áhrifalaus flokkur í stjórnmálum landsins. En skyldu þeir nokkuð hafa kjark til að skipta um formann? Er ekki gamla máltækið sem vitnað var til hér í upphafi í fullu gildi? Enginn flýr örlög sín.
Eru það ekki örlög Framsóknar að sitja uppi með Sigmund Davíð Gunnlaugsson og verða utangarðs í íslenskum stjórnmálum?