Samtök atvinnulífsins hafa ráðið Sigríði Margréti Oddsdóttur í stöðu framkvæmdastjóra í kjölfar þess að Halldór Benjamín Þorbergsson var látinn hætta fyrir nokkrum vikum. Sigríður hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra Lyfju, var þar áður hjá Já.is og Símanum í stjórnendastöðum. Hún hefur áður átt sæti í stjórn Samtaka atvinnulífsins og er nú meðstjórnandi í stjórn Bláa Lónsins.
Talsvert hefur gengið á innan Samtaka atvinnulífsins í aðdraganda ráðningar nýs framkvæmdastjóra. Samtök sjávarútvegsins reyndu alveg frá byrjun að koma sínum fulltrúa að sem nýjum framkvæmdastjóra en ýmsar tilraunir þeirra til þess tókust ekki. Sjávarútvegurinn ræður fyrir minna en fimmtungi atkvæðavægis innan samtakanna en vilja helst ráða öllu. Samtök iðnaðarins eru með tæp 40 prósent atkvæða innan samtakanna og þá eru Samtök ferðaþjónustu og Samtök verslunar og þjónustu einnig sterk. Þessir aðilar höfðu engan áhuga á að láta sægreifana stýra ráðningu framkvæmdastjóra.
Mbl.is birti í dag furðufrétt um að rætt hafi verið við fjölda sjálfstæðismanna um þetta mikilvæga embætti. Annar höfundanna er Gísli Freyr Valdórsson, fyrrum aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem hrökklaðist frá embætti innanríkisráðherra eftir að Gísli Freyr gekkst við því að hafa falsað frétt á vegum ráðuneytisins. Gísli heldur því fram að rætt hafi verið við Hönnu Birnu um starfið. Hún kom að sjálfsögðu aldrei til greina. Ekki frekar en Heiðrún Lind Marteinsdóttir sem haldið er fram í fréttinni að hafi verið boðið starfið. Það er einnig alrangt. Henni var ekki boðið starfið en sumir sægreifanna vildu fá hana til verksins. Mbl.is nefnir einnig Katrínu Olgu Jóhannsdóttur en hugmynd um hana er alveg út í hött eins og Kristínu Edwald sem gegnt hefur formennsku í kjörnefnd Sjálfstæðisflokksins um árabil. Engin samstaða hefði getað orðið um þær stöllur.
Hitt er rétt að þegar Halldór Benjamín hvarf af vettvangi gengu plön sægreifa og forystu Sjálfstæðisflokksins út á að gera Sigurð Kára Kristjánsson, fyrrum þingmann flokksins, að næsta formanni Samtaka atvinnulífsins. Þeirri hugmynd var tekið vægast sagt fálega af forystumönnum annarra samtaka en sjávarútvegs. Þá var Jens Garðari Helgasyni teflt fram en hann er fyrrum stjórnarmaður í Samtökum atvinnulífsins í umboði Samtaka í sjávarútvegi. Hann naut heldur ekki stuðnings.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur mikið reynt að koma föllnum þingmönnum og ráðherrum sínum til verka í áhrifastöðum í samfélaginu. Þannig var mikið reynt að gera Illuga Gunnarsson að framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins en Sigurður Hannesson, Miðflokks- eða Framsóknarmaður, varð þá fyrir valinu. Nú var höfuðáhersla lögð á að koma Sigurði Kára Kristjánssyni að en engin stemning var fyrir því. Fyrrum ráðherrar flokksins þær Hanna Birna Kristjánsdóttir og Ragnheiður Elín Árnadóttir hafa reynt við ýmsar virðingarstöður en án mikils árangurs.
Svo virðist sem mun meira framboð sé af föllnum hetjum Sjálfstæðisflokksins en eftirspurn.
- Ólafur Arnarson