Engin prinsipp – bara ógeð

 

„Ég er búinn að fylgjst með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

Muna lesendur þessi orð?

Nú stígur hver stjórnarþingmaðurinn fram á fætur öðrum og ver Vigdísi Hauksdóttur.

Gamalkunn umræða þegar valdið er annars vegar.

Gerendum skal breytt í þolendur. Fantar skulu fórnarlömb.

Orðið fantur er tilvísun í fyrrverandi þingmann sem lýsir Vigdísi  sem slíkri.

Samt á að kenna fjölmiðlum og blóðþorsta þeirra um ósköpin.

Þeir þingmenn sem stíga nú fram til að verja vinkonu sína hljóta að vera blindir af valdþorsta. Vegna eiginhagsmuna þeirra, samtryggingarinnar sem einkennir morkið stjórnvald samtímans, stíga þeir fram vinirnir, af því að þeir telja sig í leiðinni verja eigin hagsmuni.

Svo er ekki. Nú er tækifæri til að haka við og færa til bókar hvaða þingmenn eru gjörsamlega lausir við bæði sómakennd og prinsipp – fínt að senda þeim skilaboð í næstu kosningum. Og mikilvægt í samhenginu að rifja upp orð andlegs leiðtoga sjálfstæðismanna í fjölmiðlaheiminum til áratuga, orð Styrmis Gunnarssonar, ritstjóra Moggans þegar hann vitnaði við gerð Rannsóknarskýrslu Alþingis:

„Ég er búinn að fylgjst með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

Vigdís er ekki fórnarlamb. Henni hefur áður tekist að misbeita valdi sínu svo eftir var tekið og verður ekki útvatnað með gamansemi um að hún ætti að forðast málshætti líkt og Guðlaugur Þór Þórðarson reyndi í viðtali á Rás 2 í morgun.

Fjölmiðlamönnum um allt land rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar Vigdís sem formaður fjárlaganefndar hótaði Ríkisútvarpinu og gagnrýndi fréttastefnuna þar á bæ á sama tíma og hún veifaði niðurskurðarhnífnum. Þá sýndi hún og sannaði að hennar hugmynd um hið fjórða vald fjölmiðlanna svokallað er að það eigi að þjóna Framsóknarflokknum. Því miður sjást víðar dæmi um svipaðan misskilning.

Nú hótar Vigdís Landspítalanum.   Hótanir þingmannsins eru kjarni málsins, allt annað er yfirvarp. Sakir þess hve alvarlegar þessar hótanir eru upplifir meirihluti þjóðarinnar að landsmönnum sjálfum sé hótað í leiðinni.

Þess vegna þurfa fjölmiðlar að fjalla um Vigdísi Hauks. Með gagnrýnum hætti. Þess vegna hafa fyrrum þingmenn stigið fram og lýst hennar eigin eineltistilburðum.

Valdamesta fólk landsins lendir ekki í einelti. Til þess hefur það allt of mikil völd. En völd eru forgengileg þeim sem ekki kunna með þau að fara. Sú er ljóstýran í myrkrinu...

(Þessi fjölmiðlarýni Björns Þorlákssonar birtist fyrst á hringbraut.is í Kvikunni)