Engin kona starfar með skrímsladeildinni

Miklar annir eru nú hjá hinni geðþekku Skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins í Valhöll. Þar er unnið dag og nótt við að dreifa óhróðri um andstæðinga flokksins. Einkum þó Vinstri græna eins og gefur að skilja. Í Valhöll hugnast mönnum ekki að Vinstri græn verði stærri en Sjálfstæðisflokkurinn í komandi kosningum. Starf Skrímsladeildar hefur því ekki síst beinst að því að vekja athygli á misgjörðum Vinstri grænna í fortíðinni, einkum á tíma vinstri stjórnarinnar 2009 til 2013 þegar Steingrímur J. Sigfússon stóð fyrir mestu skattpíningu Íslandssögunnar.

 

Vinstri græn hafa rekið kosningabaráttu sína með þeim hætti að sýna Katrínu Jakobsdóttur sem mest og lagt höfuðáherslu á að fela Steingrím J. og Svandísi Svavarsdóttur. Skrímsladeildin leggur hins vegar mesta áherslu á að draga Steingrím J. og verk hans fram í dagsljósið.

 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur beitt svipuðum aðferðum hvað varðar að fela þá sem þarf að fela. Þess hefur verið gætt að sýna Sigríði Andersen, Brynjar Níelsson og Ásmund Friðriksson sem minnst. Það tókst vel þar til Ásmundur reif sig lausan og birti blaðagrein um síðustu helgi um hælisleitendur. Með því hleypti hann öllu í uppnám og ýtti af stað opinberum deilum innan flokksins. Það varð ekki til að hjálpa flokknum í miklum mótbyr.

 

Athygli vekur að engin kona starfar í Skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins um þessar mundir. Það er enn eitt dæmið um kvennahallærið í flokknum. Virkastir í starfi Skrímsladeildarinnar eru nú þeir Ólafur Teitur Guðnason, aðstoðarmaður ráðherra, Andrés Magnússon, sem var fluttur sérstaklega til landsins vegna þessara starfa, Hannes Hólmsteinn, Óttar Guðjónsson og Tryggvi Þór Herbertsson. Að sönnu föngulegur hópur þó mikið vanti upp á að jafnvægis sé gætt milli kynja í svo mikilvægum störfum fyrir flokkinn.

 

Stjórn Landssambands sjálfstæðiskvenna hlýtur senn að álykta um þessa stöðu mála.

 

 

Rtá.