Oddný Harðardóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra og þingmaður Samfylkingarinnar, segir engin opinber gögn styðja að jöfnuður hafi aukist hér á landi síðan ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar komst til valda.
Mörg dæmi eru um að formenn stjórnarflokkanna hafi haldið þessu fram. Oddný segir að hvorki sé hægt að vísa til nýlegra talna frá OECD né Hagstofunni sem renni stoðum undir að jöfnuður hafi aukist heldur noti OECD tölur frá árinu 2013 í greiningu á auknum jöfnuði.
Þetta kom fram í fréttatengda þættinum Kvikunni á Hringbraut í gærkvöld, sem sjá má hér á vef stöðvarinnar, en þar ræddu gestir þáttarins, þau Oddný Harðardóttir, Samfylkingu og Óttarr Proppé, þingflokksmaður Bjartrar framtíðar eina helstu frétt dagsins, að 1% jarðarbúa eigi nú 99% allra eigna.
Fyrsti þingfundur verður á Alþingi í dag eftir jólafrí. Ræddu þingmennirnir að auki þau þingmál sem fram undan eru auk þess sem spurt var hvort stjórnarandstaðan væri ónýt.
Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, spáir Samfylkingunni dauða á þessu ári og samkvæmt skoðanakönnunum á BF í miklum vanda fylgislega. Tæpitungulaus umræða fór því fram um þessi mál í Kvikunni á Hringbraut í gærkvöld sem sjá má sem fyrr segir á vef Hringbrautar.