Húsnæðislánamarkaðurinn hefur tekið breytingum og margir hafa verið að hugleiða hvort það er skynsamlegt að endurfjármagna núverandi húsnæðislán sín og skoða hvaða lánakjör eru hagstæðust þessa dagana. Sjöfn Þórðar hitti Lindu Lyngmo, verkefnastjóra hjá Íslandsbanka og fékk hana til að taka stöðuna á þessum málum í dag.
Eru margir að endurfjármagna lánin sín í dag?
„Já, það hefur verið aukin eftirspurn í endurfjármögnun húsnæðislána undanfarna mánuði. Þessi þróun er hins vegar auðskiljanleg þegar horft er til þeirra markaðsaðstæðna sem við búum við í dag og hvernig þær hafa breyst á undanförnum mánuðum, lántakendum í hag.“ Linda segir að vextir haf lækkað mikið og í raun hafa vextir á húsnæðislánum aldrei verið lægri en núna. Lántökukostnaður sé mun viðráðanlegri en áður og kostnaður sem lántakendur bera vegna endurfjármögnunar á lánum með fasta vexti hefur einnig dregist saman.
Er skynsamlegt að endurfjármagna húsnæðislán þessa dagana?
„Það er a.m.k. skynsamlegt að hver og einn skoði hvernig málin standa hjá sér, hvort orðið hafi eignamyndun, hvort markaðsvextir hafi lækkað síðan lánið var tekið og svo framvegis og í framhaldinu kannað hvort hægt sé að endurfjármagna á betri kjörum.
Oftast er talað um að vextir þurfi að hafa lækkað um 1% frá því að lánin voru tekin til að það borgi sig að endurfjármagna þau en það fer einnig eftir aðstæðum hvers og eins.
Þegar veðhlutfallið á eigninni hefur lækkað og eignamyndun hefur aukist myndast tækifæri fyrir fólk til að „taka til“ í lánunum hjá sér og sameina lán, ef fólk hefur verið með grunn- og viðbótarlán, í eitt grunnlán á hagstæðari kjörum.
Endurfjármögnun getur einnig verið valmöguleiki fyrir fólk ef upp kemur tímabundinn greiðsluvandi svo sem vegna atvinnuleysis, veikinda eða annarra ástæðna og væri þá hægt að lækka mánaðarlega greiðslubyrði.“
Er hægt að endurfjármagna húsnæðislán með rafrænu leiðinni?
„Flestar fjármálastofnanir eru farnar að bjóða upp á sjálfvirkar lausnir vegna húsnæðislána. Til að mynda gaf Íslandsbanki nýverið út sjálfvirka lausn fyrir endurfjármögnun húsnæðislána þannig að núna geta viðskiptavinir sótt um og gengið frá öllu ferlinu á vefnum og fylgst með stöðu umsóknarinnar á svokölluðum stöðuskjá, þegar hentar,“ segir Linda.
Linda nefnir einnig að lausnin hafi verið unnin í nánu samstarfi við viðskiptavini bankans en með henni geta viðskiptavinir nú stillt upp og sótt um þau lán sem þeim henta hvar og hvenær sem er.
Hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að geta sótt um endurfjármögnun húsnæðislán og einnig ef það er gert á netinu?
„Lausnin er aðgengilega á heimasíðu bankans og það eina sem fólk þarf að hafa til að geta sótt um eru rafræn skilríki. Greiðslumat er fyrsta skrefið í ferlinu en viðskiptavinir hafa tök á því að stilla nýju láni upp sjálfir og leika sér með mismunandi lánasamsetningar í viðmótinu áður en sótt er um.
Viðskiptavinir þurfa að uppfylla lánareglur bankans til að fá húsnæðislán hjá bankanum og það sama gildir um endurfjármögnun.“
Hvernig eru verðtryggðu- og óverðtryggðu lánin?
„Undanfarnar vikur og mánuði hafa æ fleiri valið að hafa lánin sín óverðtryggð og þá sérstaklega "hrein" óverðtryggð lán en þá er öll lánsfjárhæðin óverðtryggð í stað þess að skipta henni í verðtryggt að hluta og hluta óverðtryggt.
Þessi þróun gæti einna helst skýrst af mikilli umræðu um óverðtryggð lán, vegna þeirra vaxtalækkana sem lýst er hér að ofan og vegna þess að í fyrsta skipti er greiðslubyrði óverðtryggðra lána raunhæfur kostur fyrir mun fleiri en áður þekktist.
Vextir á verðtryggðum lánum hafa lækkað undanfarið en þó ekki jafn mikið og á óverðtryggðum lánum. Í dag eru verðtryggðir vextir um 1% lægri en þeir voru í byrjun síðasta árs á meðan óverðtryggðir breytilegir vextir eru allt að 2% lægri og gætu ef til vill lækkað enn þá meira á komandi vikum.
Að því sögðu gætu vaxtahækkanir, komi til þeirra, haft mikil áhrif á þá lántakendur sem eru að spenna bogann hátt, eru að taka hrein óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum og eru með lítinn tekjuafgang þar sem þetta eru lánin sem sveiflast mest. Kæmi til vaxtahækkana er hægt að sækja um vaxtagreiðsluþak en það er þjónusta sem veitir lántakendum skjól fyrir sveiflum í greiðslubyrði vegna vaxtahækkana með því að festa vextina í fyrirfram skilgreindu hámarki.“
Hvað er greiðslufrestur og hverjum hentar hann?
„Greiðslufrestur virkar þannig að afborgunum á láni er frestað í allt að 3-7 mánuði, fer eftir hverjum og einum, og á meðan leggjast vextir við höfuðstólinn á láninu. Oftast er lánstíminn lengdur sem því nemur svo að greiðslubyrði haldist svipuð eftir greiðslufreststímabilið en þegar því lýkur má samt sem áður gera ráð fyrir að greiðslubyrðin á láninu verði eitthvað hærri, að öllu óbreyttu, þar sem höfuðstóllinn hefur hækkað.
Einstaklingar sem lenda í tímabundnum greiðsluerfiðleikum geta sótt um greiðslufrest á lánum, s.s. vegna atvinnumissis, tekjuskerðingar eða út af veikindum.
Hægt er að óska eftir því að fá símtal við ráðgjafa þar sem farið er betur yfir stöðu hvers og eins og fundið út í sameiningu hvað hentar hverju sinni. Ég hvet fólk til að nýta sér þá þjónustu ef það er í einhverjum vafa eða vantar aðstoð með sín mál,“ segir Linda að lokum og hvetur fólk að hika ekki við að hafa samband við ráðgjafa ef einhverjar spurningar vakna.