Endurfjármögnun húsnæðislána eykst

Endurfjármögnun húsnæðislána er mjög að færast í aukana að því er fram kom í sjónvarpsþættinum Afsal á Hringbraut í gærkvöld en þar var rætt við Guðrúnu Ólafsdóttur svæðisstjóra hjá Landsbankanum um þetta efni.

Hún sagði að síðustu árin hefði mjög blandaður hópur lántakenda skoðað þennan valkost en eldri borgarar væru einnig farnir að skoða endurfjármögnun húsnæðislána sem leið til að hagræða áður en lífeyrisgreiðslur taka við. Með endurfjármögnuninni væri fólk að hagræða greiðslubirgði sinni þannig að það gæti lifað mannsæmandi lífi, þótt innkoma til heimilisins væri að minnka við starfslok.

Guðrún sagðist mæla með því að fólk færi að huga að þessum málum eftir fimmtugt, til dæmis þegar það væru 11-12 ár eftir af starfstíma á vinnumarkaði. Í sama streng tóku Guðrún Antonsdóttir, löggiltur fasteignasali hjá Garún fasteignamiðlun, og Ásdís Valsdóttir, löggiltur fasteignasali hjá Húsaskjóli. Þær mæltu með því að fólk færi fyrr en seinna að huga að sölu stærri eigna sinna og jafnvel að undirbúa þá sölu með tveggja til þriggja ára fyrirvara. Þannig væri hægt að selja eignirnar á meðan þær væru í toppstandi og huga að því hvað þyrfti að gera við fyrir sölu eða losa úr innbúinu.

Þáttinn Afsal má nálgast að hluta eða í heild sinni á hringbraut.is.