Endalok átakastjórnmála á íslandi?

Margt bendir til þess að Íslendingar geti vænst betri tíðar og manneskjulegri stjórnmálahefðar að loknum kosningum. Helstu stríðsfákar gamaldags stjórnmála hér á landi eru ýmisst horfnir af sviði stjórnmálanna eða eru um það bil að kveðja þann vettvang.
 
Það urðu vitanlega mikil tímamót þegar Ólafur Ragnar Grímsson lét af embætti forseta eftir 20 ára valdatíð. Hann hafði áður verið fyrirferðarmikill forystumaður á vinstri væng stjórnmálanna í nokkrum flokkum allt frá árunum í kringum 1970. Ólafur Ragnar efndi oft til átaka í forsetatíð sinni, ekki síst þegar hann hafnaði lögum frá Alþingi eins og frægt varð. Nú hefur hann kvatt þennan átakavettvang og það munar um minna.
 
Þegar Ólafur Ragnar hafði loks ákveðið að hætta sem forseti, steig annar stríðsmaður íslenskra stjórnmála fram á sviðið og hélt að hann nyti enn sama stuðnings og forðum þegar hann var farsæll borgarstjóri. Davíð Oddsson vildi verða forseti en misreiknaði sig hærðilega. Hann galt afhroð og lenti í 4. sæti með einungis 13,7% stuðning í forsetakosningunum síðastliðið vor. Þá kom á daginn í marktækri mælingu að það hafði orðið kúvending hvað varðar vinsældir og traust frá því að hann fór fyrir sínu fólki í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík vorið 1990 og náði 60% atkvæða. Vinsældirnar voru horfnar. Þar með er hann úr sögunni sem stjórnmálamaður eða áhrifamaður í íslenskum þjóðmálum.
 
Ögmundur Jónasson gefur ekki lengur kost á sér til setu á Alþingi. Hann er nú að kveðja þann vettvang. Ögmundur hefur verið einn harðasti baráttumaður vinstra fólks á Íslandi og hvergi dregið af sér. Með honum hverfur út stjórnmálum Íslendinga einn helsti átakamaðurinn.
 
Össur Skarphéðinsson leiðir lista Samfylkingar í Reykjavík. Óvíst er hvort hann nær kjöri. Samkvæmt nokkrum nýlegum skoðanakönnunum nær hann ekki kosningu. Samkvæmt sömu könnunum er flokkur hans, Samfylkingin, við það að fara niður fyrir 5% fylgismúrinn sem leiddi til þess að flokkurinn fengi engann mann kjörinn á Alþingi Íslendinga. Það yrði sannarlega saga til næsta bæjar. Falli Össur í kosningum helgarinnar, þá hverfur af vettvangi stjórnmálanna enn einn af þeim sem hvað mest hefur látið til sín taka og oftar en ekki staðið fremstur í átökum og plottum að tjaldabaki. Hann hefur átt sæti á Alþingi frá árinu 1991 eða í aldarfjórðung. Hverfi Össur af þingi, verður íslensk stjórnmál fátæklegri en væntanlega friðsælli.
 
Það getur því farið þannig að enginn verði eftir af stríðsmönnum gömlu kynslóðarinnar nema Steingrímur J. Sigfússon, sem verið hefur allra manna lengst á þingi og verður áfram. Ætli hann endi ekki stjórnmálaferil sinn á því að rífast við sjálfan sig á Alþingi – þegar allir gömlu andstæðingarnir/félagarnir verða farnir þaðan? Þá gefur Náttfari sér að ný og yfirvegaðri stjórnmálahefð verði þá byrjuð að einkenna störf og umræður á Alþingi.
 
Loks er að geta um stríðsmann af annarri kynslóð stjórnmálamanna sem gæti senn yfirgefið þann vettvang. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur sýnt að hann fer yfirleitt ekki með friði ef ófriður og átök eru í boði. Eftir að hann hrökklaðist úr embætti forsætisráðherra varð allt samstarf betra og skilvirkara á Alþingi. Hann tapaði svo valdauppgjöri í Framsókn, var felldur úr formannsstóli. Frekar má gera ráð fyrir því að Framsókn verði ekki með í næstu ríkisstjórn. En fari svo að flokkurinn komist í stjórn, má ætla að Sigmundi muni ekki standa til boða að gegna ráðherraembætti. Aðrir flokkar munu trúlega ekki vilja vinna með honum eftir það sem á undan er gengið.
 
Náttfari spáir því að Sigmundur Davíð muni ekki hafa þolinmæði til að sitja á Alþingi Íslendinga sem óbreyttur þingmaður. Hann lítur það stórt á sig að honum þykir það ekki samboðið sinni virðingu. Sigmundur Davíð hefur ekki þolinmæði í venjulegt þref á Alþingi eftir að hafa upplifað það að vera forsætisráðherra. 
 
Við skulum gera okkur vonir um að tími átakastjórnmála sé að líða undir lok á Íslandi. Alla vega í bili.