Elva Hrund Ágústsdóttir stíllisti og fagurkeri með meiru verður hjá Sjöfn Þórðar í þættinum Matur & Heimili á mánudagskvöld:
Elva Hrund Ágústsdóttir stíllisti og fagurkeri með meiru veit fátt skemmtilegra en að hanna rými, endurraða hlutum og dekka hátíðarborð fyrir hátíðleg tilefni. Sjöfn Þórðar heimsækir Elvu á einstaklega fallegt heimili hennar í Kópavoginum þar sem hún ætlar að svipta hulunni af hátíðarborðinu sem hún er búin að dekka fyrir jólin í þættinum Matur og Heimili á mánudagskvöld næstkomandi.
Dökkur dulúðlegur stíll sem fangar augað
„Þegar ég legg af stað í að dekka borð, þá ræðst útkoman oftar en ekki á einhverjum hlut sem mig langar til að skreyta með. Í ár var það „úfin“ blómaskreyting og berjalitaður dúkur sem ég vildi koma á borðið. Ég var með ákveðinn lit á dúk í huga og hætti ekki að leita fyrr en ég á endanum fann hörefni í rétta litnum og saumaði. Eftir það kom hitt af sjálfu sér. Ég ætlaði mér upphaflega að fara í ljóst og lystugt þema, en endaði í dökkum og dulúðlegum stíl.“ Aðspurð segir Elva að hefðir í litum og skreytingum séu breytilegar frá ári til árs. „Það breytist á hverju ári. Þó að diskar og hnífapör séu meira og minna sami grunnurinn, þá getur dúkurinn breyst, litaval á kertum, kertastjakar, skálar, glös og servíettur. Þetta eru allt hlutir sem hægt er að leika sér með á marga vegu. Annars finnst mér alveg ómissandi að hafa fersk blóm og greni.“
Vel dekkað borð eins og forréttur
Elvu er mikið í mun að borðgestum líði vel og njóti þess að sitja við borðhaldið „Ég vil fyrst og fremst að fólkinu við borðið líði vel. Það jafnast ekkert á við að sjá gleðina hjá þeim sem setjast til borðs, og fylgjast með gestunum virða fyrir sér skreytingarnar. Þá hefur manni tekist vel til. Vel dekkað borð er eins og góður forréttur í mínum huga.“ Spennandi upplifun framundan í þættinum Matur og Heimili á mánudag.
Þátturinn Matur og Heimili er sýndur alla mánudaga á Hringbraut klukkan 20.30 og aftur klukkan 22.30.